Jörðin Álfhólar
Álfhólar eru í Vestur-Landeyjum í Rangárþingi eystra á Suðurlandi, 17 km frá Hvolsvelli og 120 km frá Reykjavík.
Jörðin
Álfhólar er gjöful jörð sem ber vel þau hross sem eru á Álfhólum auk kinda og kúa. Hluti jarðarinnar er ræktað land og eru túnin vel nýtt. Jörðin Álfhólar liggur að sjó og með sjónum er Landeyjasandur, u.þ.b. kílómeters breitt sandbelti með melgresishólum sem Landgræðslan hefur umsjón með.. Í gamla daga rak töluvert timbur og fleira nytsamlegt á fjöruna sem var nýtt til eldiviðar og í girðingar og jafnvel húsbyggingar. Þar var róið til fiskjar á opnum árabátum nokkuð fram á 20. öld. Valdimar átti bát og var formaður á honum, einnig faðir hans Jón Nikulásson. Núna er fjaran aðallega nýtt til ánæjgu og yndisauka. Það er ævintýri að fara þangað ríðandi en auk þess fært á jeppa eða dráttarvél. Jörðin Álfhólar er í allt um 1000 ha og þar af eru um 200 ha í landgræðslugirðingu(fjara).
Bærinn Álfhólar
Í Brennu-Njáls sögu segir að synir Njáls á Bergþórshvoli, þeir Helgi og Grímur, hafi daginn fyrir Njálsbrennu verið að vitja barna sem þeim voru fóstruð í Hólum. Síðar breyttist nafnið í Álfhóla, en það er gömul trú manna að álfabyggð sé í hólnum Álfhól skammt austur af bænum. Enn í dag göngum við um Álfhól með virðingu, reynum að verja hann fyrir átroðningi hrossanna og röskum ekki ró álfanna.
Jörðin er að mestu grösugar framræstar mýrar og móar, en einnig sandar þar sem hún liggur að sjó. Fjallahringurinn er óvenju víður og fallegur þegar bjart er veður. Útreiðafólk í Landeyjum sér vítt yfir flatlendið á góðviðrisdegi. Einkum er fjallahringurinn ómótstæðilegur: Vestmannaeyjar í suðri, Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull í austri, Tindfjöll, Þríhyrningur, Hekla, Búrfell og Langjökull í noðri og Ingólfsfjall og nyðri hluti Reykjanesskagans í vestri.
Séð heim að Álfhólum 2008. |
Séð heim að Álfhólum í desember 2008. |
Aðstaða
Haustið 2007 lét Sara drauminn rætast og byggði með hjálp góðra manna upp 38 hesta hús með 17 x 30m inniaðstöðu. Meirihluti hússins var svo tekin í notkun í janúar 2008 og hefur gjörbreytt aðstöðunni fyrir menn og hesta sem endurspeglast í auknum afköstum og betri tamningu og þjálfun. Það segir sig sjálft að góð aðstaða er nauðsynleg til að geta unnið markvisst og skilað góðum árangri í þjálfun.
Hesthúsið er með 26 rúmgóðum eins hesta stíum og 6 rúmgóðum tveggja hesta stíum. Eins hesta stíurnar eru það stórar að þær rúma vel 2 hesta og tveggja hesta stíurnar 3 hesta.
Búskapur
Eigendur Álfhóla eru Hrefna þorvaldsdóttir og 2 dætra hennar og Valdimars, Sigríður og Rósa. Sigríður stendur fyrir búinu ásamt Söru dóttur sinni. Sigríður er með um 20 mjólkandi kýr og um 180 fjár.. Sara er áhugasöm um um fjárbúskapinn og hefur haft yfirumsjón með sauðfjárræktinni á Álfhólum síðurstu ár og sér nú alveg um hrossin. Sigríður heyjar fyrir allan fénaðinn.
Þær mæðgur halda mikið upp á mórauðalitinn í fénu og reyna rækta hann með.
Séð frá Álfhólum og til Eyjafjallajökuls.
ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]