Færslur: 2011 Mars

27.03.2011 12:50

"Arðsemi"


Hvaða hvatir lágu að baki þegar maður fór með eina af sínum uppáhalds ræktunarhryssum undir ósýndan tveggja vetra folatitt.  Já ef ég gæti nú bara svarað því!

Ég man reyndar að ég hugsaði þegar ég var búin að sjá Öskjuafkvæmin Ask og Akk, að fyrst að Askja gæti eignast fótaburðarhesta með tveim lágengustu stóðhestum á Íslandi, þá hlyti hún nú að eiga eitthvað bitastætt með Orranum ;) ( Nú verður örugglega einhver móðgaður við mig, en báðir þessir hestar og þá sérstaklega Galsi hafa alveg verið að skila ágætis hrossum)

Arð sá ég fyrst veturgamlan og leist vel á hann, verklegt tryppi, lofthár og sterklegur, og brokkði skrefmikill í háu þúfunum á Kanastöðum. Einhverra hluta vegna fannst mér alveg tilvalið að leiða Miðfells-Dimmu undir hann árið eftir.  Og 2004 fæddist Díva litla sem er búin að vera mér mikill gleðigjafi frá upphafi.

Eftir að það kom í ljós að Díva reyndist ætla að verða eitthvað meira en meðalhross, reyndi ég að leiða Dimmu aftur undir Arð fyrir tveimur árum en hafði ekki erindi sem erfiði og fékk hana gelda heim í lok september eftir að hafa verið hjá honum frá miðjum Júlí :(





Ekki til mikið af myndum af Dívu í uppvexti og hún var ekkert endilega með eitthvað "showtime" fyrir mann eftir pöntunum.  Þó lyftir hún hér þokkalega í þúfunum sem folald :)

Fyrsta afkvæmasýning Arðs var í gærkvöldi í Ölfushöll á stórglæsilegri sýningu sem haldin var til heiðurs Orra gamla frá Þúfu. Þar komu fram með föður sínum 3 Arðsafkvæmi, sem öll komu undir þegar Arður var tveggja og þriggja vetra og eru því á sjötta og sjöunda vetur.



Auk Dívu, var þar Blær frá Miðsitju, hestur á sjötta vetri, sem ég varð strax hrifin af á Svínavatni fyrr í þessum mánuði, en hann varð fjórði í A-flokknum þar.  Léttur hestur sem loftar undir.  Þess má geta að eftir að ég spottaði þennan hest út, þá skoðaði ég ættartréð hjá honum og komst að því að hann er af B-línunni frá Hólum, undan hálfsystur Blæju frá Hólum, ofurtöltaranum mikla. Hann er hæst dæmda afkvæmi móður sinnar Björk með 8.25 í aðaleinkunn.



Og Skreyting frá Kanastöðum.  Klárhryssa með 9 fyrir tölt og vilja.  Var í A-úrslitum í tölti á Metamótinu síðasta haust og á örugglega eftir að gera eitthvað meira á keppnisvellinum áður en hún fer í folaldseign.  

Díva og Skreyting eru ekki bara systur heldur náfrænkur líka.  Skreyting er undan Flosadótturunni Lömbu frá Lambleiksstöðum og Miðfells-Dimma móðir Dívu undan Brönu Flosadóttur.   Það leynir sér ekki ættarsvipurinn og kannski ekki skrítið, að þegar Leó var að fara að leggja á Skreytingu í hesthúsinu hjá mér fyrr í vetur, þá ætlaði ég að bregðast hin versta við og spyrja hvern fjandann hann væri að veltast með Dívu að mér óforspurðri! ;)


                                                                                                                           Mynd Örn Karlsson
Skyrpt úr hófum á Dívunni í Ölfushöllinni í gærkvöldi. 


                                                                                                                                                           Mynd Brautarholtshestar
Arður hefur kannski ekki náð að slá almenninlega í gegn sem einstaklingur, en það má þó þakka fyrir að hann er það sem hann er, eftir að hafa slasast alvarlega á afturfæti á fjórða vetur og ekki hægt að sýna hann fyrr en 7 vetra vegna þess. Það er reyndar alveg undravert hvað hann fæst til að beita sér á gangi svona skaddaður sem hann er og koma vel fyrir. Og það sem meira er, hann er að tikka inn sem góður kynbótahestur, kominn með nokkur hross í góð fyrstu verðlaun, og ekki síst virðist hann ætla að gefa frábær keppnishross sem vegur heldur betur þungt á vogarskálinni.

Að veðja á tvævetlinga, getur verið eins og að spila í Lottó en ég vann allavega pottinn í þetta skiptið ;)
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 2953
Gestir í dag: 108
Flettingar í gær: 1338
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 1364470
Samtals gestir: 89842
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 12:56:34

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]