Færslur: 2010 Maí

27.05.2010 23:44

Horfum lengra


                                                                                                                                  Mynd: Ransý Ásgarði

Hún skemmti sér vel í vorinu hún Dimmuborg litla þegar ég setti hana á grænan blett um daginn.  "Þrjú hjól undir bílnum en áfram skröltir hann þó" er lag sem manni dettur í hug þegar maður horfir á hana. Stundum fæ ég spurninguna  "Ætlarðu ekki að fella hana?" En ég spyr bara á móti " Sýnist þér eitthvað á henni að hana langi til að fara?"  Það er nú ekki hægt annað en að dáðst að æðruleysi og lífsgleði hjá þessu tryppi þrátt fyrir mikla fötlun. Ég heyrði af tveim hryssum í folaldseign sem eins er komið fyrir og henni (farnar úr mjaðmalið) en það gefur mér von um að ég geti líka fengið folald frá henni.  Hún er bara alger "heartbraker" þessi meri og ef Bragi hefði verið á Suðurlandi þá hefði ég örugglega farið með Dimmu aftur undir hann til að fá annað eintak!

En ég get ekki sagt að mér sé jafn skemmt yfir þessu vori og er farin að fá tilfinningu atvinnuleysingja, skil ekki alveg hvaða tilgang það hefur að rífa sig upp á morgnana, þar sem allar útreiðar hafa legið niðri að nær öllu leyti frá 25. apríl vegna hinnar dularfullu hestapestar sem ekki sér fyrir endann á. Ekkert hross hefur þó orðið alvarlega veikt fyrir utan sum sem hafa fengið þrálátan hósta og eitt tryppi sem gekk úti og var komið með töluvert í lungun. Þess vegna finnst mér það barnalegt að halda því fram að veikin lendi eitthvað vægar á þeim hrossum sem eru úti og það eigi bara að henda öllu út og þá verði allt gott. Málið er ekki svo einfalt og útigangurinn er búin að vera frísandi með hor í nös í rúman mánuð líka, auk einstaka hósts, maður tekur auðvitað minna eftir því í útigangnum af augljósum ástæðum. Ég sé heldur ekki að hrossin sem ég er búin að henda út úr hesthúsinu fyrir nokkru síðan séu neitt betri en graðhestarnir sem eru ennþá inni.

Þetta er verulega óþægilegt því byrjunareinkennin eru óljós og enn verra er að sjá út hvenær er hægt að byrja þjálfunina aftur. Ég er búin að vera að læðast á bak hrossum, en hætt aftur svona síðustu eina og hálfa vikuna af því að mér finnst þau ekki vera sjálfum sér lík. Sum hross fá svo aftur hósta þremur vikum eftir að síðasta hóstakasti lauk, sem rennir stoðum undir kenningu um það að hér sé á ferðinni vírus sem geti tekið hrossin okkar um hálft ár að mynda fullt ónæmi gegn, eins og ég heyrði haft eftir erlendum sérfræðingi. En það eru margar sögusagnir í gangi um þessa pest og stundum veit maður ekki hverju maður á að trúa en reynir að meta hlutina út frá eigin reynslu.

Þetta er verulega óþægilegt að vera undir þessari pressu að finnast maður verða að þurfa að fara af stað, að maður sé að missa af öllu með að vera ekki að þjálfa hrossin, því jú í hesthúsinu er búin að vera töluvert góður efniviður í vetur og stefnt með nokkur í kynbótadóm auk úrtöku í gæðingakeppni og tölti. Ég veit að það eru margir í þessari stöðu og jafnvel í verri. Eigendur hrossa leggja hart að knöpum að sýna hross sem búið er að leggja í kostnað með í allan vetur, hagsmunaaðilar stóðhesta sem eru á mörkunum að ná fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi þrýsta á að efnileg hross verði sýnd osfrv.....

Hagsmunir þeirra sem standa að Landsmóti eru miklir, ferðaþjónustubænda í Skagafirði og öðrum þjónustuaðilum og ekki á það bætandi eftir eldgos og aðrar hamfarir í efnahagslífinu að missa Landsmót líka. Þá eru ótaldir launalitlir tamningamenn og sýningarfólk.

En.....það er ekki bara hægt að horfa til skammtíma hagsmuna, það verður að horfa til langframa, eitthvað sem Íslendingar hefðu þurft að tileinka sér fyrir löngu síðan, þá sætum við ekki í þessari súpu sem við sitjum í nú. 

Ég spyr, er það gott fyrir okkur út á við að halda hér Landsmót hvað sem tautar og raular? Hverslags fordæmi erum við að gefa og höggstað fyrir aðrar þjóðir sem rækta íslenska hestinn á okkur.  Við erum með veirusýkingu í hrossunum sem veldur nefrennsli, slappleika og hósta. Það að leggja að hrossunum í þannig ástandi eykur hættu á bakteríuskýkingu og háum hita. Viljum við að útlendingar sneiði framhjá okkur í hestaverslun af því að við erum svo gráðug að við látum hagsmuni hestsins víkja fyrir okkar?

Ég er búin að vera í sambandi við marga aðra tamningamenn sem óska þess helst að LM verði blásið af til að losa þá undan pressunni. Leyfa hestunum að njóta vafans og jafna sig í friði. Útlendingar halda áfram að leita eftir hrossum á Íslandi þó að þeir komist ekki á Landsmót þetta árið og við viljum geta afhent frá okkur heilbrigða vöru ekki brjóstveika hesta sem fengu ekki að njóta vafans!

Það má heldur ekki gleyma að margt af þeim hrossum sem þegar eru búin að ná lágmörkum á LM eru veik á þessum tímapunkti og litlar líkur á að þau verði jafngóð eftir mánuð.

Að lokum skulum við horfa á málið út frá okkur... erum við líkleg til afreka í 400 metra grindarhlaupi á Íslandsmóti / Ólympíuleikum ef við lægjum í mánuð í bælinu með flensu rétt fyrir mót og hefðum bara viku til mánuð til að jafna okkur og koma okkur í sama formið? Ég held að það þurfi nú ekki neinn íþróttafræðing til að segja okkur að svarið er einfaldlega.. NEI!

06.05.2010 11:46

Miðsumarssýning kynbótahrossa



Það hafa stundum verið vangaveltur hjá mér og nokkrum öðrum knöpum síðustu misseri, um hvers vegna séu ekki í boði miðsumarssýningar á kynbótahrossum.  Það líða allavega 2 mánuðir frá síðustu vorsýningu hér fyrir sunnan fram að síðsumarssýningu og satt að segja skil ég ekki af hverju það er ekki sett ein sýning mitt á milli, t.d um miðjan júlí.  Einhver nefndi við mig sumarfrí ráðunauta, en ég spyr þá, er ekki hægt að hliðra til sumarfríum, þurfa allir ráðunautar að vera í fríi á sama tíma?  

Stundum vantar bara herslumuninn á að hross toppi sig og þá væri gott að geta stefnt með hrossið á sýningu miðsumars en stundum er einfaldlega of langt að bíða eftir síðsumarssýningunni og sum hross hreinlega orðin haustuð á þeim tíma, hrossin farin að loðna og sumarsjarmurinn farinn af þeim.

Ástæðan fyrir að ég viðra þessa skoðun mína fyrst núna er að það blæs ekki byrlega fyrir hestmönnum, ræktendum og þjálfurum núna.  Þessi hestapest sem fyrst átti að vera svo væg að hún átti að ganga yfir á nokkrum dögum, verður svæsnari og svæsnari sem lengra frá líður, eftir því sem menn segja.  Og svo er nú komið að allt mótahald er í uppnámi næstu vikurnar, kynbótasýningar og úrtökur.   Það er næsta öruggt að ekki nærri því öll hross verða komin í sitt besta form þegar kynbótasýningar bresta á og örugglega einhverjir sem velja það að sitja heima með gæðinginn sinn í stað þess að freista þess að sýna hann undir getu og leggja heilbrigði hans að veði.  En það eru miklir hagsmunir í húfi, búið að kosta uppá þjálfun allan veturinn með sýningu í huga.

Þess vegna finnst mér lag núna að brydda uppá þessu, að setja kynbótasýningu á um mitt sumar svo að veturinn sé ekki unnin fyrir gíg og menn hafi þá enn tíma til að halda hryssum sem eiga að fara í folaldseign um leið og viðunandi dómur fæst á þær, einnig nýtt stóðhesta sem koma vel út, á seinna gangmáli.  Og ég er að tala um fyrirkomulag til frambúðar því ég er viss um að margir sýnendur koma til með að vilja sýna hross um mitt sumar, því hvenær eru hrossin best og líklegust til að ná toppi sinnar getu?

Það sem þarf er smá samstaða og pressa frá þjálfurum og ræktendum, því ráðunautarnir eru jú í vinnu fyrir okkur!
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 1370
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 6950
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1627844
Samtals gestir: 100807
Tölur uppfærðar: 8.12.2024 12:45:16

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]