Færslur: 2008 Febrúar

17.02.2008 23:16

Ég hef ekki flutt miklar fréttir af hesthúsinu undanfarið, en samt sem áður er verið að vinna á bak við tjöldin.  Það styttist í það allur frágangur í kringum hesta klárist, stíur og reiðhöll. Gylfi kom í síðustu viku og setti upp milligerðin í síðustu lengjuna og bara eftir að setja upphækkun á stóðhestastíurnar og ganga frá við stóru hurðirnar. Og búið er að klæða reiðhöllina.




Nýlegar myndir teknar ofan af verðandi kaffistofu.

Sá þessi úrslit inni á Eiðfaxa og óneitanlega er maður ánægður með að hrossin frá manni eru að standa sig vel í keppni og séu nýjum eigendum til sóma.

Konur I:

1. Maria Greve og Trú frá Álfhólum 8v rauðstjörn.
2. Hulda G. Geirsd. og Menja frá Garðbæ 9v rauðbles.
3. Svandís Sigvaldad. og Dreki frá Skógskoti 8v brúnn
4. Sigrún Einarsdóttir og Hrannar frá Skeiðháholti 19v jarpur
5. Sirrý Halla Stefánsd. og Huldar frá Sunnuhvoli 5v móálóttur

Hendi hér inn einni gamalli mynd af Trú, en ég var stundum með hana í þjálfun eftir að ég seldi hana fjögurra vetra gamla, og sýndi hana í þokkalegan klárhryssudóm fyrir tveimur árum 7.81.  Þessi mynd er að vísu tekin árið áður. Trú er undan Svertu og Eldvaka frá Álfhólum.



Annars fór ég í dag á sýningu Julio Borba í dag.  Alltaf gott að fá smá "refreshment" þó sýningin hjá honum í fyrra hefði verið töluvert markvissari heldur en í dag.  Ég er þó langt því frá jafn dómhörð um hana eins og Trausti er á Eiðfaxasíðunni.  Og "hættulega" brúna merin sem byrjað var á í sýningunni er einmitt síðasta afkvæmi Dimmu frá Miðfelli áður en ég eignaðist hana og er undan Gauta frá Reykjavík.  Flott showtýpuefni og vonandi að það gangi allt upp með hana sem stefnt er að.  Annars sýndist mér Rökkvi vera líka orðinn  býsna"hættulegur" þarna undir lokin hjá kallinum, kominn á fulla ferð á yfirferðatölti og endaði Julio með því að taka hann næstum því í sveigjustopp til að hægja hann niður.  Ef einhver hefur uppi efasemdir um vilja í þeim hesti, þá er nú greinilega engin fótur fyrir þeim. 

Það er nú tilfellið að þessir litlu hestar okkar eru alveg svakalega kraftmiklir, og líklega fáir stórir lurkar sem standast þeim snúning.  Er það minnistætt þegar vinur minn kom með bandaríska leikkonu til mín í fyrra, til að prófa íslenskan hest, hún væri jú vön tamningakona og hefði unnið við það áður en hún varð eftirsótt leikkona( man að vísu ekkert hvað hún hét). En sem sagt, ég læt hana á góðan frúarhest og hún varð þetta ofsa hrifin og vildi endilega prófa  merina sem ég var á, Sigurrós.  Ég lét tilleiðast þegar við komum heim að hesthúsi og sagði að hún gæti riðið henni aðeins á hringnum hér fyrir utan. OK, ég skrapp aðeins inní hesthús að ganga frá hestinum hennar, en þegar ég kem út þá sé ég undir iljarnar á þeim stöllum út á veg og merin jók stöðugt hraðan þangað til að hún var komin á fulla stökkferð.  Ég hugsaði bara ómægod, og sá fyrir mér bandaríska lögfræðingasúpu á eftir mér ef frökenin myndi fljúga af baki og slasa sig!!!!  Keyrði á fullu á eftir þeim og náði píunni af baki rétt í þann mund þegar hún ætlaði að snúa við heim og leika sama leikinn aftur.  Nei takk, hugsaði ég og reið merinni heim sjálf.  En leikonan gat bara ekki skilið þennan ógnarkraft í þessum litlu hestum og vildi bara ekki trúa því að þeir væru  "so  powerful". Ég hugsaði nú bara mitt enda Sigurrós langt frá því að vera viljugasta hrossið í hesthúsinu mínu í það skiptið!!

11.02.2008 10:11

Burtreiðar

Haldiði ekki að ég hafi verið búin að skrifa þessa svaka fínu færslu í gær, en þegar ég ætlaði að vista hana, hvarf hún!! Ég hefði getað grýtt tövunni út um gluggann

En nú er kominn fallegur dagur á ný   Útreiðar ganga vel, eða eigum við að segja innireiðar frekar (uuu hljómar dáldið tvírætt, hehe) þar sem útreiðarveður hefur ekki verið björgulegt.  Eins og er, eru 14 hross inni, að vísu 2 graðhestar í fóðrun af því, svo þetta er engin frammistaða bara 12 hross. Ætlaði alltaf að sækja meir um leið og ég myndi örmerkja folöldin, en það hefur dregist alveg óendanlega.

En sem sagt það sem er inná húsi er stundað grimmt, ég veit ekki hvort ég á að vera að gefa út einhverjar yfirlýsingar um það hver er bestur, en það er dagsformið á þeim sem ræður því oftast. Manni hlakkar allavega til að fara á bak þeim öllum og takast á við hvert verkefni fyrir sig.  Ég verð þó samt að segja að ég sannfærist alltaf meir og meir hverskonar kostakaup það voru að versla Miðfells-Dimmu á sínum tíma.  Hann er bara yndislegur graddinn undan henni og Tíg, Dimmir og er búinn að vera uppáhaldið í vetur, en Dívan er alltaf að verða meira og meira spennandi.  Við lentum að vísu í smá krísu um daginn á fönninni.  Inni hafði gangsetningin gengið þokkalega enda opið tryppi að upplagi, en þegar við komum út í frostið var bara hopp og hí klárgengni, eða hreint út sagt enginn gangur, bara hopp upp í loftið.  Stúrin yfir djásninu hætti ég að reyna þessar burtreiðar og gaf henni tvo daga í frí og fór svo aftur að dunda í skemmunni. Og í gær fór ég í alveg geggjaðan túr á henni,mikill fótaburðafíkill þarna á ferð, bara gaman
Díva er alveg vel stór, 153 á bandmál á fjórða vetur, hentar mér vel!


Sú Móskjótta nafnlausa er mjög skemmtileg líka,  Leó er að vísu búin að halda því fram að hún eigi eftir að láta mig fljúga en ég er nú ekki alveg inná því, ekki lengur allavega.  Hún horfði að vísu oft svoldið einkennilega á mann í byrjun tamningar og var mikil fyrir sér, en nú er hún orðin eins og blíður köttur og farin að tölta, lulla og víxla og alles, sem sagt komin vel af stað í gangsetningu, betur en ég þorði að vona því hún sýndi aldrei gangspor sem folald. 
Léttstíg og skemmtileg þrátt fyrir að vera ca 100 kg of þung!  Hún er líka gríðarstór, 152 á hæð, veit ekki hvað ég var að gefa þeim að borða í uppvextinum.  Hún ber sig ekkert ósvipað að eins og Gáska, bara mikið stærri og myndarlegri!

Ég ætla að láta þetta nægja í bili og vona að mér takist að vista fréttina í þetta sinn!


09.02.2008 00:19

Nú er úti veður vont, taka tvö!

Það er alger óþarfi að breyta fyrirsögninni, það er hvort eð er alltaf hálf geggjað veður á þessum blessaða klaka okkar!  Ég fauk í orðsins fyllstu merkingu á leiðinni heim úr hesthúsinu, þetta eru svona 50 metrar og ég hélt að ég ætlaði ekki að hafa það heim undir glampandi eldingum og organdi þrumum.  Ég veit ekki hvort okkar var hræddara, ég eða Pjakkur. Hann við þrumurnar og ég við eldingarnar syndandi í gegnum stóran skafl, hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna flaug í gegnum kollin á mér þegar ég svamlaði í gegn! Ég er ekki hissa á að hlutabréfin falli í verði í svona hremmingsveðri, það búast auðvitað allir við heimsendi og geyma peningana undir koddanum frekar en að horfa á þá hrynja í frjálsu falli, gervipeninga sem fæstir eru til í raun og veru, en það er annað mál.  Þegar upp er staðið þá eru það hendur sem vinna sem standa uppi sem sigurvegarar á þessum tímum, þetta varð mér allavega ljóst þegar ég fékk reikninginn frá píparanum sem telst samt vera ódýrasti píparinn á stóru svæði. Það er nokkuð ljóst að ef ég á einhverntíman krakka þá sendi ég hann í iðnskóla til að læra pípulagningar til að vinna fyrir mér í ellinni, ekki viðskipta eða hagfræði til að höndla með peninga á tölvuskjá, uppkjaftaða peninga sem ekki eru til!  Sem betur fer eru mínir peningar bara fastir í húsi sem vonandi stendur af sér vonda veðrið en fellur ekki um koll eins og hlutabréfin eða borgarstjórnin. Kapitali útaf fyrir sig, sjálfstæðismenn búnir að skíta uppá bak með því að ljúga Ólaf ræfilinn fullan, ef ekki hann þá bara einhver annar í stólinn! Merkilegt nokk hvað þessi flokkur getur hnoðast áfram og komið sínum mönnum að allstaðar án þess að lýðurinn taki eftir því, tæki eftir því ef það væri framsóknarflokkurinn merkilegt nokk.  By the way mitt atkvæði er til sölu fyrir hæstbjóðanda, verst hvað það er langt í næstu kosningar vona bara að Ástþór Magnússon bjóði sig fram gegn Ólafi, hann getur boðið mér vel í tvöþúsund köllum fyrir atkvæðið X-Ástþór. Ástþór er samt ekki pabbi minn, best að það komist til skila hér fyrir fullt og allt fyrir ykkur sem ekki eruð viss!
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 1182
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1097
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 1561505
Samtals gestir: 98331
Tölur uppfærðar: 13.11.2024 11:37:53

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]