Færslur: 2007 Nóvember

29.11.2007 14:30

Breytingar í gangi

Nýr vefumsjónamaður hefur verið ráðinn tímabundið til að taka til hendinni við síðu Álfhólahesta enda var uppsetningin frekar óskemmtileg og ekki áhugaverð til að vafra um. Árinni kennir illur ræðari og auðvitað kenndi ég þessu forriti um þetta allt saman og var að hugsa um að setja upp nýja síðu við tækifæri, sem hægt væri að gera mikið skemmtilegri. 

Fékk smá sjokk í gær þegar óprúttin aðili hafði skellt slóðinni inni á slúðrið og allt í einu hafði aðsóknin aukist um 200 % og ekki lengur bara vinir og vandamenn að njósna. Ætlaði bara að læsa síðunni í snarhasti en þá bauðst Saga Steinþórs vinkona mín (Malbikshestar) til að redda málunum og sagði að það væri ekkert mál að taka til og gera þetta að aðgengilegri og skemmtilegri síðu. Þannig að tímabærar breytingar standa yfir þessa dagana og um að gera að fylgjast bara með



Saga og Árni komu með okkur í hestaferð 2005 í alveg dásamlegu veðri. Þarna eru þau undir Þríhyrningi, og að sjálfsögðu á vindóttum Álfhólahryssum

28.11.2007 21:53

Sér fyrir endann..


Fréttaþyrstir hafa haft samband við mig og lýst enn og aftur óánægju sinni yfir seinagangi við fréttaflutning, þannig að ég verð að gjöra svo vel og henda einhverju inn!



Á föstudaginn kvöddu þessir vösku kappar en þeir höfðu staðið að reisingunni og klætt þakið á rétt rúmri viku. Reyndar vantar hífingarmannin á myndina en hann hafði látið sig hverfa kvöldið áður.  Ég vil bara þakka þeim Sigga, Steina og Gulla fyrir vel unnin störf
 



Þeir fengu reyndar alveg bongó blíðu til að reisa húsið, alveg ótrúlegt miðað við þennan veðurhamagang sem búinn er að vera í haust.



Á mánudag voru svo nýir kappar mættir á svæðið og þeir tóku við að klæða og voru langt komnir með það um kvöldið.



Og í dag, miðvikudag er búið að klæða allar hliðar hússins, þannig að nú getur fólk séð betur hvernig þetta lítur út!

Ég hef verið að gantast með það að þessi fréttaflutningur ætti eiginlega frekar að eiga sér stað á Barnaland.is, þetta er eiginlega orðið að einhverri allsherjarmeðgöngusögu hesthúss  en þessi heimasíða átti nú aðallega að snúast um hesta, ræktun og sölu, hummm....? Jæja, það kemur vonandi að því að maður getur farið að nota húsið og getur farið einbeita sér að hrossunum aftur!

Var samt að hugsa í dag, að það eru örugglega tveir mánuðir síðan ég fór á hestbak síðast ef undan er talið að ég hleypti fyrir kind á honum Smala-Jarp um daginn, telst nú varla með þar sem maður riður honum nú alltaf berbakt og helst ekki með beisli heldur, bara stallmúl kannski, yndislegur hestur. Eitt sinn var ég að smala á honum og gerði smá test á honum, sleppti taumunum og lét hann ráða algerlega ferðinni, bara tékka hvað hann væri klár!  Jú, jú  hann hélt hvítu ullarhnoðrunum öllum saman og kom þeim rétta leið, en hann skildi alveg eftir eina mórauða, var greinilega ekki alveg að meðtaka það að hún væri líka rolla

21.11.2007 22:45

Og áfram með húsið!



Hún Sara Rut kemst vel að orði þegar hún talar um fiðring í maganum, því þannig er mér búið að líða undafarið, sérstaklega frá þeim tíma sem fyrstu gámarnir rúlluðu upp heimreiðina og ekki minnkar það eftir því sem lengra líður,  nema síður sé!  Þetta gengur líka svo vel. Í dag var klárað að klæða þakið austan megin enda leika veðurguðirnir við okkur núna, þrátt fyrir smá kulda, en það er nú líka seinniparturinn af nóvember og ekki nema mánuður í að daginn fari að lengja aftur!



Þetta er alveg snilldartæki sem hægt er að teygja í allar áttir.




Svo er kveikt á alveg svakalega sterku ljósi sem lýsir alla leið Ameríku

17.11.2007 23:57

Hátt rís.....



Það hefur margt og mikið gerst í framkvæmdum meðan að skeggrætt var um notagildi íslensku kúarinnar. Búið er að steypa millivegginn eftir endilöngu húsinu sem skiptir miðjustíubilinu í tvennt og nú er bara eftir að steypa framhliðarnar.



Landstólpamenn mættu galvaskir á svæðið á miðvikudaginn og hófust strax handa við að hífa upp úr gámum og á fimmtudag var allt komið á fullt við að setja saman og veggstoðir komnar upp í lok dags. Á föstudag var svo farið að reisa þaksperrur og í dag, mánudag eru allar þaksperrur komnar upp.



Það fór ekki illa um kallana í blíðviðrinu á föstudaginn og ekki var veðrið verra í dag, alveg snilldarveður til að reisa.  Það hefði nú ekki verið huggulegt á fá hávaðarok þegar verið var að reisa þaksperrurnar, allavega hefði ég ekki viljað vera nálægt!!



Tvær sperrur!



Þrjár sperrur!

12.11.2007 22:28

Okkar ástkæra mjólk(urkú)

Hvað er hún að fara að tala um núna, hugsar eflaust einhver núna, er hún alveg að missa sig,  fara að tala um beljur!!!??

Ó já, mér er um og ó þessa dagana þar sem ég sérlegur áhugamaður um íslensku mjólkina. Mjólk, eða þ.a.s undanrenna er mitt uppáhald (drekk að jafnaði 1 líter á dag sem gera 365 lítra á ári) og ég er alveg miður mín yfir þeim umræðum þessa dagana yfir fyrirhuguðum innflutningi á sænskum "skjöldum"

Á nú að fara að kasta gömlu góðu íslensku kúnni sem hefur skrölt með okkur í gegnum aldirnar i þröngum moldarkofum og verið eina lífsbjörg kotbænda fram á síðustu öld????

Kvótakerfið hefur haldið meðalnytinni niðri í mörg ár, því til hvers að pumpa kýrnar til að mjólka þegar ekkert fæst fyrir mjólkina?

Svo þegar það vantaði mjólk, þá stóð ekki í íslensku kúnni og hún jók nytina um 1000 kg á síðustu átta árum og er enn að bæta í.

Sem segir okkur að við erum ekki búin að reyna til fulls, hvers kúin okkar er megnug.

En við erum samt að hugsa um að skipta henni út fyrir einsleitar rauðskjóttar beljur sem duga að jafnaði í tvö ár en þá þarf að fella þær!

Ég er búin  að ferðast til nokkura landa, þó að ég kallist seint víðförul, og að sjálfsögðu fer ég og kaupi mér mjólk hvar sem ég fer, en mér finnst engin mjólk eins góð á bragðið eins og sú íslenska.  Og hvers á ég þá að gjalda ef innflutningur verður leyfður? Nú ,ég verð að vera eini sérvitringurinn á landinu og eiga nokkrar landnámskýr svo ég fái góðu mjólkina mína áfram. Verð líklega að fá mér skilvindu líka, því þótt sveitamjólkin sé best, þá er full mikill rjómi í henni fyrir minn smekk, og ég myndi líklega enda eins og hvalur ef ég drykki jafn mikið af henni eins og undanrennunni, og það fer ekki vel á því 

Það eru ákveðnir menn sem hafa hag af því að fá að flytja inn nýtt kúakyn, þvi þá þyrfti að endurnýja svo mörg fjós en það eru einmitt þessir menn sem hafa hæðst í þessum málum, í ljósi gróðrahyggju
( ussss, komin út á hálan ís, held ég segi ekki meir frá þessu fyrr húsið mitt er komið upp, þið skiljið......)

En ég vona að íslenskir bændur séu klókari en svo að láta blekkjast, og standi vörð um íslensku kúna og bæti hana bara enn frekar því hún er ekki búin að syngja sitt síðast og lengi má gott bæta.

Að lokum koma hér myndir af tvennum tvíburum sem fæddust sitthvorn daginn 15. og 16. október, þriðju tvíburarnir á árinu. Þeir sem ekki vita, þá eru tæplega 20 mjólkandi kýr á Álfhólum, en það er nú að mestu í verkahring móður minnar að hugsa um þær, þó svo mar´ sé nú ekki í vanræðum með að tækla mjaltavélarnar

Mússí, mússí.... 

09.11.2007 21:41

Það var fallegt kvöld í nóvember...

Jæja, kominn tími á eitthvað skemmtilegra heldur en fréttir af steinsteypu og stáli   Skrapp út í mýri í eftirlitsferð og aldrei þessu vant var ég með myndarvélina með mér.  Hrossin eru ekki öfundsverð greyin að þurfa að standa úti í þessum hrakviðrum sem hafa dunið yfir að undanförnu en þau voru brött engu að síður og virðast ennþá vera bara í fínu standi enda feykna hagi sem þau eru á.



Gæska, Gásku og Tígursdóttir tveggja vetra.  Mikil vinkona mín og tók það upp hjá sjálfri sér að vera ótrúlega mannelsk án þess að nokkuð væri til þess gert, aldrei verið á húsi eða slíkt. Sýnir svaka hreyfingar þegar hún er í stuði, er alhliða. Gamli Álfhólastofninn er ríkjandi í ættartrénu hennar.



Álfasteins og Dimmudóttirin er hissa á svip.



Móeiður heilsar alltaf uppá.


Og dóttir hennar og Eldjárns frá Tjaldhólum er aldrei langt undan.

Ronja og Þyrnirós

Vígalegur á litinn! FOR SALE!


Dökkjarpvindóttur störnóttur, virkilega skemmtilegur litur á þessum, f.f Pegasus frá Skyggni.
FOR SALE!



Gáska með Bragadótturinni sinni.



Sterk fjölskyldubönd, Móeiður öftust, Álfasteinssonurinn hennar og Eldjárnsdóttirin.



Ekki finnst manni leiðinlegt að horfa á litfagrar og stórefnilegar unghryssur gæða sér á vítamíninu. Allar undan 1st verðlauna hestum. Sú bleikblesótta undan Sóldögg og Berki frá Litlu-Reykjum tveggja vetra.  Sú faxmikla undan Ísold frá Álfhólum og Skrúð frá Litla-Landi, sammæðra Diljá 1st. verðlauna hryssuni hennar Hrefnu Maríu. Á bak við eru svo tvær Gáskudætur, undan Þokka frá Kýrholti og Tígur.
Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi
hér

06.11.2007 17:57

Ho,Ho,Ho,We say Hey Hey Hey !

Jæja, komin tími á smá fréttir, er það ekki?  Það eru sjálfsagt einhverjir farnir að halda, miðað við síðustu færslu að veðráttan hafi sett mig í algert þunglyndi og nú sé allt farið fjandans til!  Nei, bara aldeilis ekki, og ef svo hefði verið þá hefði hann Barði reddað því með nýja júróvísion laginu sínu Ho, Ho..........alveg snilld, eins og ég hefði samið það, ekta teknótæfulag, já maður fílar þetta ennþá, komin á fertugsaldurinn

En af hesthúsframkvæmdum er þetta að frétta aðfóðurgangarnir voru steyptir á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan í myrkri og ausandi rigningu og hagléli. Það heppnaðist bara ótrúlega vel miðað við aðstæður, en mesta vinnan var, að daginn eftir þurfti ég að tæta fjórar heyrúllur og leggja yfir ganginn, því að það var von á 8 stiga frosti og leiðinlegt að láta tæplega 200fm steypu molna niður í frostinu! Þetta var alger púlvinna, troða því í alla króka og kima, en sérstaklega að taka það af aftur, rennandi gegnblautt í blindroki og rigningu á þriðjudaginn var, úff ég var alveg búin í bakinu daginn eftir.  En platan bjargaðist og ekki millifersentimeter af frostskemmd!

Svo var verið að klára lagnavinnuna fyrir bæði frárennsli og rafmagn, það rétt slapp fyrir horn vegna veðurs og nú flýtur vatnið allt af grunninum beint ofaní skurð og safnast ekki lengur saman fyrir utan húsið öllum til ama og leiðinda.


Þarna er milliveggurinn  svo að rísa en hann var svo steyptur í gær.  Gaman að sjá húsið loksins vera að rísa uppúr jörðinni.  Svo er búið að vera að keyra meiri möl endalaust í kringum það og inní reiðhöllina og hún er nærri því tilbúin. Fundum frábæra moldarblandaða fína möl, á sama stað og hin mölin er tekin.  Var búin að sjá fyrir mér svaka vinnu við að blanda saman mold og sandi, en þarna fékk ég það allt saman blandað af náttúrunar hendi og keyrt beint inná gólf!

And the good news are.... Það verður byrjað að reisa á föstudag   og þeir ætla að taka sér í mesta lagi 3 vikur í að reisa og ganga frá hurðum og gluggum, þanning að það verður vonandi hægt að byrja að innrétta í lok nóv eða byrjun des.

Það hafa væntanlega einhverjir glöggir tekið eftir steyputeinunum sem standa uppúr steypunni en það er semsagt ákveðið að steypa frontana og Gylfi Geirs smíðar svo hurðir og milligerði fyrir mig.

Jæja, læt þetta duga í bili þangað til næst
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 811
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 17404
Gestir í gær: 203
Samtals flettingar: 1548368
Samtals gestir: 98037
Tölur uppfærðar: 10.11.2024 04:03:13

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]