11.04.2012 12:55

Meistaradeildin

Það var í byrjun október að ég fékk símhringingu frá Sigga Matt og boð um að vera með þeim í liði Ganghesta Málningu, á komandi keppnistímabili í Meistaradeildinni. Þó svo að það hefði alveg blundað í mér löngun til að vera með, verandi með góð hross undir höndum þessi misserin, þá þurfti ég smá umhugsunarfrest til að velta þessu fyrir mér, hvort ég væri að nenna þessu og svo er ekki eins og olían sé ókeypis þessa dagana! En ákvað svo að slá til reyndar með því skilyrði að ég mætti sleppa því að keppa í skeiðgreinunum.

Keppnishryssurnar Díva og Sóllilja voru svo teknar inn í byrjun nóvember eftir að hafa verið í fríi frá því í lok júlí og því ekki seinna vænna en að fara að dusta af þeim rykið og senda þær í bootcamp eftir allt hamborgaraátið í mýrinni! Og auðvitað fór ég í bootcamp líka því það er ekki nóg að hrossið sé í góðu formi ef knapinn er það ekki ;)

Ég var nú ekki alls ekki með nein markmið í sambandi við að vinna deildina enda fyrsta skipti sem ég tek þátt, en við einstakar greinar hafði ég sett mér háleit markmið, sérstaklega í töltinu og slaktaumatöltinu sem var þó algerlega óskrifað blað fyrir mig. Gæðingafimin var líka spennandi grein, og ég hafði trú á að ég gæti gert ýmislegt af mér þar.  Fyrir mér var hins vegar fjórgangurinn úrslitamót því ef mér tækist vel upp þar, þá ætti ég kannski raunhæfan möguleika á því að komast í toppbaráttuna, ef ekki, þá væri á mjög brattan að sækja þar sem í skeiðgreinunum er ég langt frá því skarpasti hnífurinn í skúffunni og með algerlega tóman reynslubanka.


                                                                                                            Mynd Valgerður Valmundsdóttir

Fyrsta mótið í röðinni var fjórgangur og þar lá þunginn á Sóllilju. Hún var mjög góð á æfingum og það eina sem þurfti að pússa fyrir mót að manni fannst voru gangskiptingarnar.  Mótinu var svo frestað um viku og ég veit ekki hverju var um að kenna, en hún náði ekki sama flugi á mótinu og hún hafði verið á æfingum og einkuninn uppá 6.5. Þær voru svakalega misjafnar einkunirnar á henni, frá 5.9 sem mörgum fannst nú hreinasti dónaskapur uppí 6.9. Og einkunnir fyrir einstaka gangtegundir, voru t.d frá 6 uppí 8.5 fyrir stökk, flestir í 7,5 og fet frá 4 til 6, þannig að dómarar voru ekki alveg sammála um það hvernig átti að meðhöndla okkur.
 
En mestu munaði um töltið sem átti að vera nokkuð öruggt, að fyrir bæði hægt og hratt var einkunnin í kringum 6, sem var langt undir hennar getu, enda hefur hún sýnt það og sannað á mótum seinna í vetur að hún getur vel farið yfir 7 í tölti! Þannig að já, fjórgangangskeppnin olli mér vissum vonbrigðum...... en áfram skyldi haldið....... en ekki í hvítu reiðbuxunum, þær voru bara ávísun á "Bad Luck"!!

Næsta mót var gæðingafimi og það var ekki mikill undirbúningstími fyrir það útaf seinkun fjórgangasmótsins. Fyrir fjórganginn þá fannst mér 50/50 hvort ég færi með Dívu eða Sóllilju á í gæðingafimina, þar sem mér fannst full mikið að leggja það á Dívu að koma fram á þremur mótum í röð svona snemma að vetri. Díva er auðvitað mikið meira show hross, en Sóllilja gæti hentað í allskonar krúsidúllureið og slöngulínur og orðin nokkuð sleip í fimiæfingum.   


                                                                                         Mynd Eiðfaxi

En eftir fyrstu æfingu á laugardeginum var ekki aftur snúið..... "ÞÚ BLASTAR ÞAKIÐ AF HÚSINU" sagði Edda Rún við mig og sagðist aldrei hafa lent í því að hafa fengið gæsahúð á æfingu!  En svo kom höfuðverkurinn að setja upp prógramm sem hentar Dívu, það er jú töluvert stressandi að mæta með hross á mót með tvær tíur í farteskinu, var eiginlega auðveldara hérna áður þegar hún var ekki svona hátt dæmd sko! Þannig að ég las mér til um reglur og leiðara og sá að gangtegundir og flæði fleytir manni býsna langt þanng að ég ákvað að stilla hlutum upp þannig að hryssan myndi njóta sín sem best, og ekki vera að flækja hana í miklum æfingum, baugum eða slöngulínum og tapa á því fasi.  Það er ljótt að segja það, en það eru alltaf einhverjir sem bíða eftir mistökum og það að góð hross komi ekki svo góð fram, bara til þess að smjatta á því.  Það var því einkar ánægjulegt að fyrrverandi kennarinn minn frá Hólum hringdi í mig eftir mótið, ánægður með okkur og hvað það væri gaman að sjá hross koma fram og standa við tíurnar sínar, en hlaupa ekki i felur eins og stundum er gert með hross sem fá gríðar háa dóma :)  


Það var bara sett eitt markmið fyrir þessa grein.... og það var að hafa gaman :D


                                                                                                                         Mynd Gígja Einarsdóttir
En, já við enduðum sem sagt i öðru sæti eftir fágaðri sýningu Artemisar og Korgs, "Girlpower"!

Næst á dagskrá var töltkeppnin, þar átti að gera stóra hluti og því mikið svekkelsi að forkeppnin gekk illa, 7.63 í einkunn þar. Ég var búin að breyta hjá mér beislabúnaðinum í von um betra "touch" en það varð til þess að það varð ekkert "touch" þannig að fyrir úrslit var honum breytt aftur, og allt small saman og óhætt að segja að þar hafi verið nokkur yfirburðarsigur, þar sem Díva klikkti út með 9.5 fyrir yfirferðartölt og endaði í 8.72 í lokaeinkunn, rúmlega heilum hærri en í forkeppninni.
Þar með var ég komin í toppbaráttuna í heildarstigasöfnunni á eftir Jakop og Artemisu. 
 

                                                                                            Mynd Gígja Einarsdóttir

Kjempakátar eftir sigurinn í tölti, tja eða ég allavegana, veit ekki um Dívuna ;)

Slaktaumatöltið var svo þriðja mótið okkar Dívu og ég hafði tvær vikur til að beisla orkuna í henni til að ná að stjórna henni án taumsambands.  Og það voru margir sem höfðu ekki mikla trú, tja eða vonuðu að ég gæti ekki sleppt taumnum á þessari fjörbombu án þess að fara á fulla ferð, en í T2 er beðið um tölt á slökum taum frá hægu upp í milliferð. Ég vissi að ég var undir smásjá, var alveg búin að fá að heyra það útundan mér, og því sigldi ég öruggu leiðina í forkeppninni og náði öðru sæti rétt á hæla fyrrverandi Íslandsmeistara, Jakops og Als frá Lundum. Í úrslitum, lét ég svo gamminn geysa, allt að vinna og keppnin gat varla verið meira spennandi því eftir hæga töltið og frjálsu ferðina vorum við Kobbi jöfn. En slaki taumurinn vegur tvöfalt og hann réði úrslitum, þar vann Díva og lokaeinkunn 8.54. Ekki svo slæmt að vinna örugglega fyrsta T2 mótið sem ég á ævinni tek þátt í :)

Sem sigurvegari ætti ég ekki að vera að væla neitt yfir dómgæslunni, en mér fannst samt skrítið að ég fékk lægra fyrir hæga töltið í T2 heldur en T1, því tilfinning mín var allt önnur.  Mér fannst hún svo miklu jafnari og betri á hægu í Slaktaumatöltinu.... en já já kannski hafa dómararnir séð eitthvað sem ég ekki fann.... en annars ætti að liggja betur fyrir henni að fá að fara aðeins hraðar á hæga töltinu eins og má í T2, því Díva er stór og löng og eins og einhver sagði á æfingu þegar það var verið að skamma mig fyrir að ríða of hratt á hægu.... "common ef hún fer mikið hægar þá er hún komin niður á fet"    

En það er allt önnur saga sem  verður ekki sögð hér...... En hins vegar má alveg segja þá sögu að ég var svo sniðug að halda undir snilldartöltarann Tón frá Melkoti í fyrrasumar og á von á tveimur folöldum!


Stelpurnar sem áttu að taka upp fyrir mig töltúrslitin máttu ekkert vera að því fyrir fagnaðarlátum og það var svoldið mikið um hálfar ferðir, vantaði niðurhæingarnar og svona ýmislegt, en ég reyndi samt að klippa það eitthvað saman.  Annars er hér annað video með öllum hestunum frá Hestafréttum  http://www.youtube.com/watch?v=yLCUNJt_EEE


Og hér er upptaka frá Hestafréttum af úrslitum í T2

Eftir slaktaumatöltið var ég orðin efst í deildinni, en ég hló nú bara að því og sagði að það yrði nú bara í hálftíma eða þangað til að skeiðinu væri lokið. Ég var þó komin með fína meri í hendurnar, Zeldu frá Sörlatungu sem ég þekkti þó lítið nema að ég var búin að komast að því að henni var sérstaklega illa við haglél, sem var ekki alveg nógu sniðugt því úti geysaði stormur með stórhríð og Hagléli!!!!  Ég náði einum sprett en eftir nokkrar stökkskiptingar og hopp og skopp fyrir utan reiðhöllina svo tíminn var dapur.   En aðalkeppinautarnir náðu heldur ekki stigum svo viti menn, ég fékk að vera stigahæst í heilar tvær vikur, ekki bara hálftíma....wúhúú!

Ég hélt áfram að bambast á þessari skeiðhryssu hvað sem verða vildi. Ég gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til að komast hjá því að mæta á skeiðmótið í Ármóti, því það hefði jú verið inní samningum í upphafi að ég hafi ALLS EKKI ætlað að taka þátt í skeiðinu. En ég lét undan, gat ekki verið þekkt fyrir annað fyrst ég var orðin efst í deildinni, varð að þykjast berjast allavega. Ég afréð að gera aðra tilraun með Zeldu og fara með hana í 150 metrana og þ.a.l fyrsta skipti sem ég hleypi út úr boxi (Siggi var reyndar búinn að vara mig við því að Zelda væri inní boxi eins og hún væri í hagléli, svo það hljómaði ekkert sérlega uppörvandi fyrir jómfrúarferðina ;) Fyrri umferð gekk fínt, nema ég fór of pent í hvatningarnar og fékk enga keppni frá hestinum sem var hleypt með. Og svo átti sko að gefa allt í botn í seinni umferð, en hún stóð ekki nógu vel í básnum og stökk út á kusu og þar með var það "game ower".  Munaði samt sorglega litlu að ég næði inn stigum því hesturinn í 9. sæti fór bara tveimur sekúndubrotum hraðar en ég, ellefta sæti varð því niðurstaðan...... En jæja,  nú er ég búin að prófa að hleypa úr boxi og læra hvernig hestur á að standa í boxi,  það er það jákvæða við allt saman..... aldrei að vita nema maður prófi það aftur einhverntíman síðar!


Ég var búin að fara nokkra hringi með val á hesti í gæðingaskeið, en var í lokin komin með þá skoðun að ég færi með Dimmi, enda ætti ég að þekkja hann best. Vandamálið var hins vegar að eftir að hafa verið frábær í janúar og febrúar, þá var hann ekki eins frábær í mars, og það skrifast að hluta á mig og mínar járningartilraunir en nokkrum dögum fyrir mótið set ég hann á orginal járningu og hann fór að verða eins og hann átti að sér að vera....þetta video tekið kvöldið fyrir mótið.... Það böggaði mig samt að hann var jafn reynslulaus í þessari grein og ég.

Siggi var nokkrum sinnum búinn að bjóða mér Birting sinn við litlar undirtektir, því ég vissi að hann var að fara á honum í 150 metrana og vildi ekkert vera að hringla inní því dæmi og fannst það ekki við hæfi.  En á mótsstað fór hausinn á mér að snúast í hringi og ég ákvað að prófa gamla snillinginn sem gekk bara svona voða fínt, og ákvað því að leyfa Jarpi mínum að bíða bara inní húsi.  En gamli var nú ekki lengi að fatta að meistari Sigurður var ekki lengur við stjórnvölinn og tók góðan snúning á mér, svo við riðum ekki feitum hesti frá þeirri keppni. Og til að toppa daginn, lagði ég á Dimmi eftir mótið uppí Ármóti, lagði hann upp afleggjarann þar og hann nottla eins og hugur minn..... ég ætla ekki að hafa eftir hvað ég blótaði sjálfri mér mikið eftir hringlandaháttinn í mér!


Rétt áður en Birtingurinn ákvað að leika á mig ;)

Fyrir lokamótið, fimmganginn fékk ég lánaðan reiðhestinn hans Ragga Hinriks, Völ frá Árbæ rétt fyrir mót. Loðinn og krúttlegur innan um alla "spikk and span" graddana skilaði hann sínu með sóma fékk 6.50 í einkunn sem væri á venjulegu móti hin fínasta einkunn og í fyrra hefði dugað í B-úrslit í Meistaradeildinni. En það var öðru nær í ár á þessu firnasterka móti þar sem dramatíkin og spennan réði ríkjum til enda. John tók heldur betur glæsilegan endasprett í deildinni þegar hann vann sig upp úr 10unda sæti í það fyrsta á Konsert frá Ármóti, sem ég á "by the way" glæsilegt folad undan síðan í fyrra :)


Konsert sonurinn.

Heildarstigakeppnin í deildinni fór þannig að Misa vann verðskuldaðan og öruggan sigur.

  1. Artemisia Bertus  lið Hrímnis 48,5
  2. Jakob Svavar Sigurðsson lið Top Reiter / Ármót      41
  3. Sigurbjörn Bárðarson Lýsi 36
  4. John Kristinn Sigurjónsson Lýsi 35
  5. Sara Ástþórsdóttir Ganghestar / Málning      34    
En það að vera í Meistaradeild kallar líka á fjölmiðlathygli og endalaus viðtöl, sérstaklega þegar vel gengur... og þó maður geti á stundum verið málglaður, þá langar manni líka stundum bara til að þegja og getur alveg lent í því að verða algerlega andlaus þegar ætlast er til annars.
 
Um miðjan marsmánuð fékk ég bæði hressar Eiðfaxa konur og hressan Samúel Örn í heimsókn á fallegum fimmtudegi og málbeinið var alveg sæmilega laust ;)  Sjónvarpsþáttinn má sjá hér:   http://www.ruv.is/sarpurinn/meistaradeild-i-hestaithrottum/21032012 og Eiðfaxann má kaupa útí búð eða í áskrift á netinu. 

Það er náttúrulega frábært þegar almennir fjölmiðlar sýna hestasportinu áhuga, Morgunblaðið hefur líka komið að fréttaflutningi frá stærstu mótum vetrarins og bara vonandi að fjölmiðlar haldi áfram að veita þessu eina vinsælasta sporti þjóðarinnar athygli og helst enn meiri.Montrassgatið sem skottaðist í kringum mig á hólnum í lok sjónvarpsþáttarins er hryssa á fjórða vetur sem ég hef töluverða trú á, Meyja undan Dimmir og Mær Mónudóttur opin og skemmtileg klárhryssa. Hún fékk líka þann heiður að verða forsíðufyrirsætan í Eiðfaxa!

Það er búið að vera frábær reynsla að taka þátt í Meistaradeildinni í vetur og hefur ýtt manni verulega út fyrir þægindaramman að keppa í fullt af nýjum greinum sem ég hef hingað til ekki haft nokkurn áhuga á og hefur haldið manni við efnið dimmustu mánuði vetrarins. Ég þakka liðsfélögum mínum kærlega fyrir samveruna í vetur, þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt og gefandi að vinna með ykkur, takk fyrir mig!

Eldra efni

Flettingar í dag: 278
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 19689
Gestir í gær: 330
Samtals flettingar: 1214107
Samtals gestir: 79417
Tölur uppfærðar: 25.7.2024 01:46:59

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]