11.01.2011 01:00

Á nýju ári"I have a dream".... um að það komi svona jafnfallinn og fallegur snjór ofan á frosnu freðmýrarnar hérna sunnanheiða, eins og kom hér einn dag yfir jólin :)

En gleðilegt árið allavegana áður en lengra er haldið! Og þær buðu sko nýja árið velkomið hún Díva og Þokka og Gáskudóttirin sem sprönguðu um og léku sér á nýársdag sem enginn væri morgundagurinn.  Og ég fékk ágætis tækifæri til að prófa nýju myndavélina sem ég fékk um jólin, vúhú!

Jepp góðu útreiðardagarinir í kringum áramótin voru kærkomnir og hrossin alveg í feyknastuði mörg hver, verst að ég hafði engann á myndavélinni þá til að festa það á filmu ;)
Ekki voru tilþrifin lítil hjá hálfsystur Dívu, henni Vöku frá Kanastöðum sem setti sig í hollingu eins og hún væri tilbúin að keppa við þá bestu. Hörkugóð og jafnvíg alhliðahryssa, og ég skil ekkert í því að enginn skuli vera búinn að fjarlægja hana úr hesthúsinu mínu ennþá! Já það er svoldið spes að þau hross sem staldra lengst á sölu eru fimmgangshrossin en klárhrossin eru oftar en ekki farin innan tveggja vikna eftir að þau koma inná síðuna hjá okkur.  Svoldið sérstakt í ljósi þess að alhliða hrossum er núna gert hærra undir höfði eftir vægisbreygingarnar heldur en klárhrossunum sem enda bara í 7,92 í aðaleinkunn fyrir hæfileika en voru með 7.98 áður.  Maður spyr sig hvort að það sé verið að færa ræktunina fjær markaðinum með þessu?  Og til hvers?  Ég nenni samt ekki að fara útí þessa sálma núna, á einhverstaðar risa bloggfærslu um þetta frá því snemma í haust sem ég hef þó ekki nennt að ómaka mig við að klára, kannski geri ég það seinna. 

En Vakan er góð hvað sem öllum vægisbreytingum líður, enda með brokk eins og klárhestur og mikill reiðhestur að auki! 


Fatlaða fólið hún Dimmuborg hálfsystir Dívunnar í móðurlegg, var ekki lítið ánægð með veðurblíðuna og spólaði upp alla brekkuna.  Þetta video tók ég þegar ég var að prófa  videoið á nýju myndavélinni minni og það er nú svona og svona tekið með alltof mikilli zoom linsu í of mikilli nálægð, en vonandi kemst myndefnið til skila engu að síður.   Hún Dimmuborg getur vonandi gefið einhverjum óheppnum eiganda von sem lendir í sömu aðstæðum og ég, hvort á að fella eða eiga.  Ég er allavega alveg hrikalega ánægð með mig að hafa tekið slaginn með henni þótt að það hafi oft verið erfitt að horfa uppá hana.  Hreyfigetan verulega skert en engu að síður fær um að sletta úr hóf ef svo ber undir og stendur upp núorðið án nokkura vandræða þótt hún sé komin slatta langt á leið.  Í fyrra voru miklar tilfæringar við að koma sér á lappir og helst vildi hún bara liggja 80% af sólarhringnum.
En verður spennandi að sjá hvort hún kemur frá sér spræku folaldi á komandi sumri, en hún er eins og áður hefur verið sagt, fylfull undan Frosta frá Efri-Rauðalæk

Jæja, best að fara að leggjast á bæn og biðja um snjó eða rigningu, því þetta er orðið full mikið af því góða, alger óþarfi að kaffæra norðlendingana í öllum snjónum!   Hrossin hjá manni fara að vera svo mikið tamin á þessari reiðhallarþjálfun, maður er að verða uppiskroppa með æfingar til að kenna þeim til að halda við fjölbreytileikanum!  Jú jú auðvitað er hægt að ríða á túnunum eitthvað, en það er líka bara oft svo rosalega kalt og sum hrossin ekki fullgóð í lungunum ennþá eftir flensuna, búin að setja tvö á Penisilin kúr eftir að þau komu inn, bæði með Bronkítis, Gjóska og Mánasteinn, hann reyndar helmingi verri og tamingin sem átti að vera á honum seinnipartinn í haust hefur  farið útum þúfur.  En hann er kominn undir Back on track núna og þetta hlýtur að fara að lagast, en allavega er maður ekki að taka sénsinn og láta þau mæðast í köldu lofti ef hægt er að komast hjá því og útreiðarfærið lítið spennandi.

Ég ætla að minna hesteigendur á Suðurlandi að tékka á vatni í hólfum hjá sér, því þó að það hafi sloppið undanfarin ár, þá er það ekki víst að það sleppi núna, öflugar sprænur eru að frjósa þannig að hrossin komast hvergi nærri vatni, og þegar þetta er farið að hlaupa á vikum... þá er það ekki gott.

Eldra efni

Flettingar í dag: 426
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 19689
Gestir í gær: 330
Samtals flettingar: 1214255
Samtals gestir: 79431
Tölur uppfærðar: 25.7.2024 03:15:06

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]