03.08.2010 10:20

Stórmót Suðurlands


                                                                                                                                                Dimmir og Sara

Hestamennskan hér á Álfhólum er hægt og rólega að rísa upp úr öskustó eftir flensuskrattan sem hefur tröllriðið öllu síðustu misseri.

Það var þó ekki fyrr en um síðustu mánaðarmót, í byrjun Júlí að ég sagði hingað og ekki lengra, byrjaði að járna allt uppá nýtt og koma öllu í gang.  Þá hafði ég varla sest í hnakk frá því í lok apríl, í rúma tvo mánuði!  Ég var að spá í að byrja á því að fara á reiðnámskeið, svo ryðguð var ég orðin, og harðsperrurnar sem ég fékk eftir fyrsta daginn..... við skulum ekki tala um þær!

Hrossin voru svona og svona, og sum höfðu bætt alveg svakalega á sig, eins og til dæmis hún Díva mín sem líktist frekar flóðhesti en venjulegu hrossi eftir hvíldina. Hefði nú getað startað henni eitthvað fyrr, en hún slasaðist á afturfæti um miðjan júní og fékk þ.a.l tvær auka vikur í hvíld.

Um helgina var svo stórmót og miðsumarssýning á Hellu þar sem voru yfir 50 skráningar í öllum  fullorðinsflokkunum og það er ánægjulegt að það sé að lifna svona yfir hestamennskunni.

Í B-Flokk var ég með Gjósku, og fékk hún 8.30 eftir þokkalega sýningu og vantaði herslumuninn til að komast í B-úrslit.  Mér fannst ég reyndar ekki ná nógu vel til hennar og svo kom í ljós daginn eftir að hún var orðin hölt á framfæti og er enn. Þar með er hún að brenna inni með síðsumarssýninguna.

,
                                                                                                                                                Díva og Sara

Systkinin undan Miðfells-Dimmu stóðu sig með ágætum.  Dívan er enn svoldið þung á sér eftir langa stöðu og var svo sem ekkert að toppa sig, en í forkeppni í Tölti skoruðum við 7.20 og í úrslitum 7.57 og uppskárum fjórða sætið.



                                                                                                                                            Dimmir og Sara

Viku fyrir mót byrjaði ég að þjálfa Dimmir aftur.  Ég ætlaði að byrja á honum líka í byrjun Júlí en hann byrjaði þá aftur að hósta mér til mikillar ánægju eða þannig og fékk 3 vikur í viðbót í frí.

Í annað skiptið inná hringvöll og einkunn í forkeppni 8.43 og önnur inní B-úrslit.  Eftir tölt og brokk stefndi allt í öruggan sigur, en úthaldsleysið gerði vart við sig og skeiðið klikkaði. Hann endaði þvi aftur annar í B-úrslitum með einkunina 8.52. Ég fékk boð um að ríða í A-úrslitum á honum vegna forfalla, en ég ákvað að geyma það til betri tíma og koma hestinum í betra form.

Á laugardagskvöldið tókum við einnig þátt í ræktunarbússýningu en meir um það síðar.

Eldra efni

Flettingar í dag: 1370
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 6950
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 1627844
Samtals gestir: 100807
Tölur uppfærðar: 8.12.2024 12:45:16

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]