06.05.2010 11:46

Miðsumarssýning kynbótahrossa



Það hafa stundum verið vangaveltur hjá mér og nokkrum öðrum knöpum síðustu misseri, um hvers vegna séu ekki í boði miðsumarssýningar á kynbótahrossum.  Það líða allavega 2 mánuðir frá síðustu vorsýningu hér fyrir sunnan fram að síðsumarssýningu og satt að segja skil ég ekki af hverju það er ekki sett ein sýning mitt á milli, t.d um miðjan júlí.  Einhver nefndi við mig sumarfrí ráðunauta, en ég spyr þá, er ekki hægt að hliðra til sumarfríum, þurfa allir ráðunautar að vera í fríi á sama tíma?  

Stundum vantar bara herslumuninn á að hross toppi sig og þá væri gott að geta stefnt með hrossið á sýningu miðsumars en stundum er einfaldlega of langt að bíða eftir síðsumarssýningunni og sum hross hreinlega orðin haustuð á þeim tíma, hrossin farin að loðna og sumarsjarmurinn farinn af þeim.

Ástæðan fyrir að ég viðra þessa skoðun mína fyrst núna er að það blæs ekki byrlega fyrir hestmönnum, ræktendum og þjálfurum núna.  Þessi hestapest sem fyrst átti að vera svo væg að hún átti að ganga yfir á nokkrum dögum, verður svæsnari og svæsnari sem lengra frá líður, eftir því sem menn segja.  Og svo er nú komið að allt mótahald er í uppnámi næstu vikurnar, kynbótasýningar og úrtökur.   Það er næsta öruggt að ekki nærri því öll hross verða komin í sitt besta form þegar kynbótasýningar bresta á og örugglega einhverjir sem velja það að sitja heima með gæðinginn sinn í stað þess að freista þess að sýna hann undir getu og leggja heilbrigði hans að veði.  En það eru miklir hagsmunir í húfi, búið að kosta uppá þjálfun allan veturinn með sýningu í huga.

Þess vegna finnst mér lag núna að brydda uppá þessu, að setja kynbótasýningu á um mitt sumar svo að veturinn sé ekki unnin fyrir gíg og menn hafi þá enn tíma til að halda hryssum sem eiga að fara í folaldseign um leið og viðunandi dómur fæst á þær, einnig nýtt stóðhesta sem koma vel út, á seinna gangmáli.  Og ég er að tala um fyrirkomulag til frambúðar því ég er viss um að margir sýnendur koma til með að vilja sýna hross um mitt sumar, því hvenær eru hrossin best og líklegust til að ná toppi sinnar getu?

Það sem þarf er smá samstaða og pressa frá þjálfurum og ræktendum, því ráðunautarnir eru jú í vinnu fyrir okkur!

Eldra efni

Flettingar í dag: 811
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 17404
Gestir í gær: 203
Samtals flettingar: 1548368
Samtals gestir: 98037
Tölur uppfærðar: 10.11.2024 04:03:13

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]