05.01.2010 23:32

Á nýju áriÞað er ekki hægt að hafa Gleðileg jól fram að páskum þó að óneitanlega hafi maður haft það fínt um jólin, og já og Gleðilegt nýtt ár, "by the way" :)

Veit ekki hvar ég á að byrja en fannst það við hæfi að birta mynd af litlum brandblesóttum Pjakksyni sem komin er í fóstur til mín.  Átti að vera tímabundið því Verena var búin að frátaka hann, en svo kom í ljós að það er ekki víst hvort hún hafi aðstöðu til að vera með hann því hún verður ekki hjá mér í vetur.  En mér er eiginlega alveg sama þó hann verði hér Ótímabundið, því mig langar bara alveg að eiga hann sjálf.  Ekki það að það sé ekki nóg af hundum í kringum mann, hann er bara svo "ógó" mikið krútt ;)
Eins og t.d hann Viggó varðhundur sem tekur sér alltaf stöðu í óbyggðri kaffistofunni (sem á vonandi að fara að klára í vetur)  og tekur hressilega á móti gestum svo að mörgum er um og ó. Það er samt alveg nauðsynlegt að eiga góðan varðhund á þessum síðustu og verstu, allavega er Hrefna María alveg klár á því að það hefði ekki verið brotist inn hjá þeim í fyrra ef Rexi hennar og Fluga hans Valda bróður hennar, hefðu verið heima.  Þau hefðu örugglega tekið á móti þjófapakkinu og pakkað því saman.  En sem betur fer hefur starf Viggós verið Hestasmali fram að þessu og hann er svaka góður í því, hjálpar til við að reka á eftir hjá manni og fleira.  Hann er samt stundum aðeins of aktífur og oftar en ekki heyrast svohljóðandi orgin í manni um allt hesthús: VIGGÓ NEI !!!!!!  Og þá hleypur sá mórauði uppá kaffistofuloft svo ég nái ekki í skottið á honum ;)Pjakkur minn gamli er þarna fremstur á myndi með Viggó og Rex.  Pjakkur vill heldur halda sig á "Austur-bakkanum", nánar tiltekið á Kanastöðum þar sem honum finnst hann fá betri þjónustu og húsnæði heldur en hérna.  Þar hefur hann líka verið duglegur  við að auka kyn sitt og nýjustu fréttir herma að litfagrir hvolpar undan honum hafi verið að seljast dýrum dómi á einum bæ.  Jahá, ég þarf nú að fara að innheimta hvolpatoll fyrir hann með þessu áframhaldi!Og Dimmuborg litla biður að heilsa. Það er svo sem ekkert nýtt að frétta af henni, en hún er ekkert
á því að gefast upp á lífinu ennþá og er býsna brött á að líta og fyrirmyndarsjúklingur í alla staði.  
 

"Hörkutól" segir Dýralæknirinn um hana sem hefur meðhöndlað hana og er á sömu skoðun og ég, að gefa henni eins mikinn tíma og sjá til hvort einhver bati komi til með að eiga sér stað.  Vorum raunar sammála um það í síðustu úttekt að hún væri aðeins skárri. Og verður maður ekki að vona að góðir hlutir gerist hægt og ungur aldur vinni með henni.
Heilbrigt hross verður hún náttúrulega aldrei heldur er spurning hvort hún geti gróið einhvern veginn þannig að hún finni ekki mikið til.En annars bara spennandi vetur framundan og fullt af skemmtilegum hrossum að týnast á skeifur. Móey Móeiðardóttir og Gáskudæturnar Gjóska og Gæska svo eitthvað sé nefnt. Og ég fékk góðar fréttir af Mánastein rétt fyrir áramót. Hann svarar ekki beygjuprófi og ýfingar sem sáust á kjúkubeini fyrr í haust virðast hafa gróið ágætlega, þannig að maður skellir kannski kappanum aftur á skeifur fyrr en síðar og athuga með frekari tamningu :)  Maður fagnar nú samt alveg rólega, því sinar sjást ekki á röntken og það verður bara að koma í ljós hvort að það hafi orðið einhver skaði á þeim.

Og hvort hann verður jafn hágengur og þarna á myndinni verður líka að koma í ljós, en hann er allavega laus í bógunum ;)

Ný aðstoðarkona er komin í hesthúsið og hún er íslensk í þetta skiptið, eða allavega að hálfu leyti, norðmenn eiga svo hinn helminginn, hún heitir Elísabet og er frá Steinsholti í Gnúpverjahrepp.

Flettingar í dag: 362
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 381
Gestir í gær: 194
Samtals flettingar: 768164
Samtals gestir: 43927
Tölur uppfærðar: 24.9.2023 01:30:25

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]