07.10.2009 09:28

Jæja...


                                                                                                               Mynd: Birgit from Germany

Mikil bloggleti hefur verið í gangi síðustu vikur, og ekki bætti úr skák að Internetið lá hérna niðri í heila fjóra daga þangað til í gærkveldi.
En það er ekki þar með sagt að það gerist ekkert í sveitinni, það er búið að gelda helling af ungfolum, sprauta ungviðið með ormalyfi, velja líflömbin og láta hitt í hvíta húsið og svo fram eftir götunum.....

Og ennþá er hesthúsið yfirfullt af tamningartryppum og bættust við fáeinir 3ja vetra ógeltir um daginn, eins og til dæmis hann Mánasteinn sem baðar sig í kvöldsólinni þarna í Álfhólunum í sumar.



Hvort að fortamningin í garðinum heima fyrir rúmlega þremur árum þegar við Mánasteinn fengum okkur blund saman, hafði eitthvað að segja veit ég ekki, en það er nú samt staðreynd að hann er með auðtamdari tryppum sem ég hef verið með.  Hann var svo yfirvegaður í fyrsta skipti sem ég setti hnakkinn á hann að ég hringteymdi hann bara með knapa í leiðinni, og daginn eftir var honum riðið lausum í reiðhöllinni. Sem sagt  "so far, soo good", jákvæður og skemmtilegur foli, léttur í spori og grípur í töltið þegar við á og væntingarnar til hans hafa bara aukist ef eitthvað!



Annar skemmtilegur foli sem er í tamingu núna er hann Dáðadrengur, bróðir Dimmis og Dívu.  Hann er í miklu uppáhaldi hjá Verenu tamningakonu.  Ekki alveg út í bláinn þegar ég talaði alltaf um að augun í þessum fola myndu loga, því hann sýnist ætla að verða feykna viljugur þessi og minnir mig á Dimmu gömlu þegar hún var í frumtamningu, orkumikill en þægur og rífur upp lappirnar.

Vegna þess að ég sá fram á næg verkefni í haust, þá bætti ég við einni 19 ára stelpu frá Þýskalandi, henni Katharinu  sem stefnir á að vera eitthvað hér í haust með okkur.

Einhverjir glöggir hafa kannski tekið eftir að það er komið nýtt "lúkk" á síðuna en það er hún Saga vinkona mín, tölvuséní með meiru sem er í smá hausttiltekt þessa dagana og ég er alveg hæstánægð með það.  Já það er alltaf gott að eiga góða að :) 

Eldra efni

Flettingar í dag: 951
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 1377
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 1426946
Samtals gestir: 93809
Tölur uppfærðar: 7.10.2024 09:45:31

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]