27.05.2008 01:44

Vor í lofti


Jæja, kynbótasýningar í algleymingi og allir að fara á taugum. Hross skráð á lágmark 3 sýningar, það skal ein takast! Já, nú eru allir á límingunum, dómarnir ósanngjarnir og þar fram eftir götunum, Landsmótsár....... 

Annars hef ég ekki mikið fylgst með þessum sýningum, kíkti á stóðhestana á yfirlitinu á föstudaginn og komst að því að ég hef ekkert vit á hestum.  Hestar með 8,5 fegurð í reið, hundómerkilegir og aðrir einungis með 8 sem voru puntulegir og meira spennandi.  En þetta er svona, manni er ekki ætlað að skilja allt.  Sá hestur sem mér fannst mest spennandi var Ómur frá Kvistum, hnaut um hann í Ölfushöllinni um daginn líka, það loftar vel undir þann klár.

Hjá mér er þetta orðið eins og sagan um 10 litla negrastráka, þeim fækkar alltaf þeim hrossum sem ég stefni með í dóm, nú eru einungis 3 eftir, þar sem Villimey týndi skeiðinu fyrir stuttu og þá er ekki mikið eftir. 
Sú móskjótta undan Gásku gafst upp fyrir fitupúkanum í apríl og var parkerað, rétt eins og  Parkersdótturinni sem fór í pásu og svo í úlfatanntöku en þær höfðu verið að ergja hana eitthvað.
  
 Atorka fór í sömu aðgerð en ég ætla samt að reyna að sýna hana í Hafnafirði.  Þurfti að þjálfa hana beislislaust um daginn, á snúrumúl,  það var ákveðið stjórnleysi í fyrsta reiðtúrnum, en í þeim næsta lagði ég hana þann besta sprett sem hún hefur tekið og ég hugsaði með mér að það væri nú ljótan ef ég þyrfti að sýna hana á snúrunni!!  Og ég sem hef ekki mikla trú á þessu beislislausa dóti sem verið er að troða inná fólk, vil meina að það eigi að fara á námskeið, því árinni kennir illur ræðari, töfralausnir séu ekki til og beislisvandamál liggi í vankunnáttu knapans oftast. 

Burtséð frá því , þá fór alsystir Atorku í byggingadóm um daginn, hún Aríel, en hún var seld fyrr í vetur. Eitthvað hefur nýjum eiganda hennar ekki líkað við nafnið og því hét hún því fína nafni NN frá Álfhólum fyrir dómi.  En allavega, hún fór í 7.98 og var ég frekar hissa á því, vegna þess að tvær systur hennar sem ég taldi töluvert síðri í útliti fóru í 1st verðl fyrir byggingu.

Atorka er ein af þessum Tígurbörnum sem hefur þessa frábæru lund á alla kanta.  Ofsalega ljúf og þægileg í umgengni og á húsi en alveg sprengviljug.  Alger klaufaskapur í mér að hafa ekki sett hana í þessa úlfatanntöku fyrr því þær voru svo greinilega að eyðileggja þjálfunina í vetur. 

Dívan með vind í faxið eins og hinar dívurnar í Júróvision! Stefnan tekin á Hafnarfjörð, hvað sem verður.
Dimmir mætir líklega í hakkavélarnar á Hellu í lok vikunnar ef ekkert kemur uppá. 

Mátuðum völlinn um daginn, alltaf töluverð breyting að fara af mölinni heima yfir á hvítan völl með allt öðruvísi viðnám, get engu spáð með það hvernig þetta á eftir að ganga.

En ef allt fer á versta veg, get ég huggað mig við það að Ráðunautin hafa ekki alltaf rétt fyrir sér....
.
.....ekki frekar en þegar hann Móflekkur minn fékk heldur lakan dóm, svona miðað við annað.  Að sjálfsögðu tók ég ekkert mark á því, var sannfærð um að þarna færi sterkbyggð og öflug kind, sem kom svo berlega í ljós þegar afkvæmin skiluðu sér.  Besta lífgimbrin undan honum og fallþungi lambanna undan honum 2 kg yfir meðaltali bússins!!!  Sjálfur vó hann 90 kg veturgamall, 20 kg þyngri en spjátrungshrútur sem "Ráðunautin" voru svo hrifin af.

Og gefur þar að auki svona hrikalega krúttleg lömb!

Eitt folald bættist í safnið í gær, jörp hryssa undan Tíg og hryssu undan Hrannari frá Kýrholti, ánægð með að fá meri.
Vel við hæfi að setja inn mynd af gamla ljóninu sem við tókum um daginn þegar við vorum að ragast í hrossum.  Og minna kannski þá "sérvitringa" sem vilja halda undir hann, að hann verður ekki eilífur.  Þetta verður kannski síðasta sumarið hans en hann er búinn að vera óvenju slæmur í slasaða fætinum í vor og verður ekki hafður þannig endalaust.  Folatollur undir þann gamla kostar 40.000 innifalið vsk, ggj. og 1 sónar.


Og svo í lokin af því að það er alltaf gaman af litlu folöldunum, þá fékk Leó þessa sætu bleikskjóttu hryssu undan Hruna frá Breiðumörk og hryssu sem hann á undan Heljari frá Stóra-Hofi, flottri meri sem slasaðist illa og var aldrei sýnd. 

Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 2204
Gestir í gær: 105
Samtals flettingar: 889767
Samtals gestir: 56444
Tölur uppfærðar: 6.12.2023 12:50:41

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]