18.06.2012 00:23

Kolka hæst dæmda hryssa ársins!!

Hrefna var alveg ákveðin í því að halda Kolku geldri síðasta sumar og ríða henni þennan veturinn. Margir töldu hana hafa misst vitið þar sem hryssan var afar hátt dæmd síðasta sumar og Landsmótssigurvegari í sínu flokki 5 vetra hryssum. En eitthvað innra með Hrefnu sagði henni að Kolka hefði ekki toppað sig enn og ætti eftir að sýna meira og ekki síst þá vorum við aldrei ánægð með hálseinkunnina á henni, en hún á auðvitað borðleggjandi níuna skilið þessi drottning!Kolka og Hrefna áttu magnaða sýningu á Gaddstaðaflötum í seinni vikunni.  Þær svifu átakalalaust hnarreistar eftir brautinni á öllum gangtegundum og Kolka fékk hvorki meir né minna en 8.85 fyrir hæfileika og hæst 9.5 fyrir vilja og geðslag, eitthvað sem þetta geðprýðishross stendur fyllilega undir.   Ég er ekki sammála þeim sem segja að öll hross sem eru að fara í 9.5 og 10 fyrir vilja séu spennuviljug hross sem sé á fárra færi að ríða.....IS2006286428 Kolka frá Hákoti
Örmerki: 968000001802023
Litur: 2700 Brúnn/dökk/sv. einlitt
Ræktandi: Halldóra Hafsteinsdóttir, Markús Ársælsson
Eigandi: Hrefna María Ómarsdóttir, Rósa Valdimarsdóttir
F.: IS2002186435 Íkon frá Hákoti
Ff.: IS1996187336 Töfri frá Kjartansstöðum
Fm.: IS1994286104 Bella frá Kirkjubæ
M.: IS1995286428 Frá frá Hákoti
Mf.: IS1989184551 Þorri frá Þúfu í Landeyjum
Mm.: IS1990286414 Feykja frá Hala
FORSKOÐUNARDÓMUR
Héraðssýning á Gaddstaðaflötum
Mál (cm): 141 - 137 - 63 - 142 - 28,5 - 17,5
Hófa mál: V.fr.: 9,0 - V.a.: 8,9
Sköpulag: 8,0 - 9,0 - 9,5 - 9,0 - 7,0 - 8,5 - 8,0 - 8,0 = 8,44
Hæfileikar: 9,0 - 9,0 - 8,5 - 8,5 - 9,5 - 9,0 - 7,5 = 8,85
Aðaleinkunn: 8,69      Hægt tölt: 8,0      Hægt stökk: 7,5
Sýnandi: Hrefna María ÓmarsdóttirSvona skal sitja þegar riðið er í 8.85 ;)

2 + 2 verða ekki alltaf 4

Kolka kemur efst allra hryssna inná Landsmót með 8,69 í aðaleinkunn.  Hún er glæsileg alhliðahryssa, spekúlantar tala hreyknir um að hér sé verðugur fulltrúi íslenska ræktunartakmarksins, sem er glæsilegur hestur með 5 gangtegundir, klárhross með skeiði.  Gott og vel..... það er hins vegar svoldið athyglisvert að rýna í ættartré Kolku og skoða hvað er að finna þar og hvernig hross, því stór hluti af hennar forfeðragarði eru klárhestar en eins og væntanlega fleiri en ég hafa tekið eftir þá eiga klárhross minni og minni möguleika á því að láta ljós sitt skína sem Kynbótahross á Landsmóti.

En ég ætla að rýna aðeins í ættartölu Kolku til gamans..... og þar tek ég fyrstan fyrir hann Íkon kallinn frá Hákoti, rúman töltara, og hver vill standa á því fastar á fótunum að hestar með 7.5 fyrir háls geti ekki gefið glæsihross?!   Íkon kemur undan tveimur klárhrossum, Bellu frá Kirkjubæ landsmótssigurvegara í 4 vetra flokki 1998 og Töfra frá Kjartansstöðum.  Bella er undan frægum klárhesti, Loga frá Skarði, ef mig misminnir ekki þá var klárgangur afar ríkjandi í hans afkvæmum en Brella móðir hennar bjó yfir dálitlu skeðspori samkvæmt Worldfeng.  Töfri er svo undan heldur klárgengri klárhryssu ef ég skil rétt, Ternu frá Kirkjubæ og Óð frá Brún sem hafði allar 5 gangtegundirnar.  Þannig í föðurlegginn finnast ekki fimmgangshross fyrr en í þriðja ættlið.

Móðirin Frá frá Hákoti er alhliða hryssa, svoldið athyglisvert að rýna í tölurnar á henni, 9.5 fyrir vilja og geðslag en engin gangtegund upp á hærra en 8.5, það hefur skinið af henni gæðingsbragur.   Ætla mætti að Kolka hefði bygginguna frá móður sinni en svo er ekki því hún er ennþá lægra dæmd fyrir byggingu heldur en Íkon, en hefur þó 8 fyrir háls og herðar.  Frá er þó sögð myndarhryssa af þeim sem hana þekkja. sem stigast samt ekki vel.  Hún er undan Þorra frá Þúfu sem er alhliða og Feykisdótturinni Feykju frá Hala sem ég hef eftir fyrstu hendi að var mjög klárgeng í gangsetningu, fékk engu að síður 5.5 fyrir skeið, en miðað við hvað tölteinkunn var lág hjá henni grunar manni að hún hafi fengið þessa kommu fyrir klárhestabinding.   Þokkadís móðir hennar var síðan klárhryssa einnig, en Feykir alhliða eins og margir vita.  Og það þarf ekki að taka fram að Orri faðir Þorra er rúmur opinn klárhestur.

Jahá, mér þótti svoldið athyglisvert að fara í gegnum ættartréð hjá Kolku..... getur verið að við getum nálgast hið íslenska ræktunartakmark, klárhestinn með skeiði án þess að rækta eingöngu með íslenska ræktunartakmarkinu?   Hvað gerist ef við ætlum að útrýma notkun á klárhestum af því að þeir fá ekki að sjást á stærri mótum nema þá í B-flokki gæðinga og tölti.  Skyldum við nálgast ræktunartakmarkið hraðar..... eða skyldum við fjarlægjast það, sitja uppi með of geng og flókin hross sem henta fáum nema flinkustu reiðmönnum???????  Ég þarf vart að taka það sérstaklega fram að mér hugnast þessi þróun alls ekki.  Hrossarækt er margslungin og flókin og eins og ég sagði hér að ofan þá verða 2+2 sjaldnast 4, stundum kemur bara 1 og svo geturðu fengið 10.  Við megum ekki missa fjölhæfnina úr hrossastofninum og í mínum huga er fjölhæfni eins og ég hef oft sagt.... mismunandi hestar með mismunandi ganglag því sá hestur sem hentar einum hugnast ekki alltaf öðrum. Þrátt fyrir að Kolka væri í þjálfun í vetur, fékk hún líka að auka kyn sitt með hjálp fósturvísaflutninga og það kom lítill laglegur svartstjörnóttur hestur út úr því, og faðirinn er hinn fótlipri Þrumufleygur.  Hrefna pantaði útlitið frá móðurinni og fótaburðinn frá föðurnum og það er aldrei að vita nema sú pöntun hafi verið rétt móttekin, hann er allavega myndarlegur sá litili :)


                                                                                                                           Sumarið 2011

Síðasta hrossið sem fékk sinn Landsmótsfarmiða frá Álfhólum er frænka hennar Kolku, hún Sólllilja en hún varð sjötta í úrtöku hjá Geysi með 8.54. en Þorri frá Þúfu er afi þeirra beggja.   Mikið af góðum hrossum kepptu um 6 sæti Geysis og baráttan svakalega hörð og hrossin í fjórða til áttunda sæti voru frá 8.53 til 8.55 þannig að maður þurfti að taka á sínum stóra til að höndla spennuna þarna í lokin og ekki auðvelt að vera næstum síðust inná seinni daginn verandi búin að horfa á alla hina fara uppfyrir sig, en ég var með 8.50 fyrri daginn en það er tvöföld úrtaka hjá Geysi.  Ég hefði komið ágætlega út úr því ef það hefði verið einföld úrtaka, því eftir fyrri daginn var Dimmir í sjötta sæti í A-flokk, en ég gerði ógilt í seinna skiptið, því hann hélst ekki á brokki hjá mér og þar með var sá draumur úti.

Það er ótrúlega stutt í Landsmót, manni finnst vorið bara vera nýbyrjað og það er að detta á hásumar og heyskapur að bresta á en fyrstu túnin voru felld hér í dag.....Allt að gerast!

Eldra efni

Flettingar í dag: 314
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 19689
Gestir í gær: 330
Samtals flettingar: 1214143
Samtals gestir: 79421
Tölur uppfærðar: 25.7.2024 02:09:01

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]