25.01.2010 15:48

Val á LandsmótsstaðÉg get vart orða bundist yfir þeirri ákvörðun að leitast við að halda Landsmót í Reykjavík 2012.  Persónulega finnst mér nóg að hafa tvo landsmótsstaði á landinu, á Gaddstaðaflötum og á Vindheimamelum, byggja þessa staði betur og betur upp heldur en að hringla með þau á milli staða.
Landsmótið 2008 var illa skipulagt að mörgu leyti og ég skil afar vel óánægju fólks yfir því.  Að hafa keppnishrossin í hólfum á opnu tjaldsvæði, veit ekki hverjum datt þetta eiginlega í hug. Ég hefði verið brjáluð að hafa eitthvað lið undir áhrifum allskyns efna í kringum sparihestana mína.  
En þó að skipulag á mótinu 2008 hafi ekki verið í lagi, hvernig voru mótin á undan því?? Ég man ekki eftir öðru en að LM 2004 hafi bara verið afar vel heppnað og skemmtilegt mót.  Reyndar eru umferðarmálin á sunnudeginum alltaf vandamál og það reyndi verulega á þolrifin að bíða í bílnum í tvo tíma áður en maður komst út á þjóðveginn á síðasta landsmóti.   Ég hugsa hinsvegar að það sé sama hvar landsmótið verði haldið á suðurlandinu, umferðamálin á sunnudeginum verða alltaf erfið, líka í Reykjavík, Landsmótið er jú FYRSTU HELGINA Í JÚLÍ mestu ferðahelgi ársins ásamt verslunarmannahelginni.  Og til að losna við þessa miklu umferð, verðum við þá ekki bara að færa Landsmótið fram um eina helgi??? Og losna þá við skrílinn sem kemur bara á LM til að detta í það, því það hefur ekki efni á því svona rétt fyrir mánaðarmótin! 

Og hver eru svo helstu rökin fyrir því að færa LM til Reykjavíkur, jú það er svo frábær aðstaða þar fyrir hesta og menn. 
Tökum fyrir hestana... Ég veit ekki betur en að allir hestar séu komnir meir og minna á græn grös þegar komið er fram í lok júní. Aðstaðan sem ég sé á höfuðborgarsvæðinu samanstendur af hesthúsi og litlum gerðum fullum af grjóti en mér finnst það ekki vera sæmandi keppnishrossum um hábjargræðistímann.  Ég myndi vilja hafa túnblett til að geta hleypt út á, kannski að maður gæti girt af UMFERÐAREYJU einhversstaðar.  Í þrjátíu km radíus frá Gaddstaðaflötum eru óteljandi tamnngarstöðvar og hrossabú sem hægt er að semja við um geymslu á hrossum og með réttu skipulagi er hægt að hafa fín keppnishestahólf á Gaddstaðaflötum fyrir slatta af hrossum, þannig að fullyrðingin um að aðstaðan fyrir hross sé betri á höfuðborgarsvæðinu er röng að mínu mati.

Og svo fólkið.... Það er ekki hægt að bjóða útlendingum að vera í tjöldum innan um þetta æpandi pakk sem sækir landsmót, þeir vilja vera á fínum Hótelum!  Á suðurlandi eru líka óteljandi gistimöguleikar frá Hveragerði að Eyjafjöllum og ég get ekki séð að það sé stórt vandamál þar á ferð.  Tjaldbúðastemningin líka fyrir marga ómissandi á Landsmótum og ég get ekki séð hvar á að koma henni fyrir á Landsmóti Í Reykjavík, kannski á einhverri ANNARI UMFERÐAREYJU??

Aðstaðan fyrir áhorfendur á Gaddstaðaflötum er sú besta á landinu, hvar annarstaðar geturðu rölt nokkra metra og verið með puttann á púlsinum um hvað er að gerast bæði á kynbótavellinum og keppnisvellinum?? Ekki í Víðidal, ekki á Vindheimamelum eða Melgerðismelum!   Og mér hefur verið tjáð að það eigi að bæta enn um betur varðandi áhorfendabrekkuna á Gaddstaðaflötum ef mótið verður aftur þar.  Til að koma öllum áhorfendaskaranum fyrir í Reykjavík hlýtur að þurfa að gera miklar breytingar, því ef ég man rétt þá var afar þröngt á þingi þar árið 2000.

Hvort að ég sé hlutdræg, já ég er það örugglega en ég þekki samt fullt af fólki héðan og þaðan af landinu sem er sammála mér og vill að þarnæsta Landsmót verði haldið á Gaddstaðaflötum með hæfu og reyndu fólki í skipulagningu sem er ekki alltaf að finna upp hjólið!

 

Eldra efni

Flettingar í dag: 2107
Gestir í dag: 194
Flettingar í gær: 2895
Gestir í gær: 453
Samtals flettingar: 1180062
Samtals gestir: 78180
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 14:42:57

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]