29.06.2009 00:29

Lúffi frá Leiru
Ástarfundur Móeiðar og Fróða frá Staðartungu bar ekki árangur og ekki um annað að ræða en að finna annan gæðing staðsettan á Suðurlandi, því ekki hef ég það gaman af akstri að ég nenni að elta Fróða norður í land!

Spútnik græjan Kjerúlf frá Kollaleiru varð því fyrir valinu og skellti ég hér inn myndbandi af kappanum sem er frá því á Hafnafjarðasýningunni í fyrravor, þar sem hann er aðeins fimm vetra gamall. Því miður komst hann aldrei á Landsmót (slasaðist) og fékk þ.a.l  ekki þá athygli sem hann á verðskuldaða.  Kjerúlf býr líka yfir töluverðu skeiði þrátt fyrir að á þessu myndbandi sýnist hann klárhestur. Fékk 7 fyrir skeið í vor og þótti sumum nískulega gefið.  Sá það ekki sjálf og get ekki dæmt um það, en ég hef séð hann flugskeiða á vikt þannig að ég get allavega vottað það, að hann sé vel vakur.

Ekki spillir fyrir að Kjerúlf er stórættaður, undan Orrasyninum Takt frá Tjarnarlandi sem er margverðlaunaður gæðingur, en móðurættin af honum er kannski eitthvað sem ég er hrifnari af.
Fluga frá Kollaleiru móðir hans var stórgæðingur með 8,73 fyrir hæfileika.   Fluga var skyldleikaræktuð undan ofurtöltaranum Laufa frá Kollaleiru og mömmu Laufa, Stjörnu frá Hafursá.  Stjarna var svo undan Nökkvasyninum Kvisti frá Hesti.  Nökkvi er rauði þráðurinn í ræktunni hér á Álfhólum og gaman að geta nálgast það blóð annarstaðar frá líka.                                                                                                                 Mynd. Axel Jón Birgisson

Laufa heitinn frá Kollaleiru þekkja allir sem eru eldri en tvævetur og fyrir mér var töltið í Laufa skólabókadæmi um alvöru tölt.  Dillimjúkt með samræmi milli fram og aftur.

Því miður varð Fluga ekki mikið eldri en 10 vetra, fórst á svipuðum tíma og önnur mjög góð  Laufadóttir sem Hansi átti, Þota.  Fluga og Þota voru slysafolöld sem urðu til þegar Laufi var aðeins veturgamall og hans einu afkvæmi sem skráð eru í Worldfeng, og miðað við getuna hjá þessum tveimur hryssum, þá hefði alveg mátt leita uppi hundinn sem át eistun hans Laufa!

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er Kjerúlf staðsettur í Sandhólaferju.

Eldra efni

Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 19689
Gestir í gær: 330
Samtals flettingar: 1214182
Samtals gestir: 79423
Tölur uppfærðar: 25.7.2024 02:30:21

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]