Færslur: 2014 Júní

16.06.2014 10:56

Stóðhestar 2014

Við verðum með nokkra góða hesta í girðingu í sumar sem hægt verður að leiða hryssur undir. 

Þrumufleygur verður í girðingu hjá okkur strax eftir Landsmót. Verð á folatolli með öllu er 125.000 kr. 

Hér er video af honum tekið á vordögum:


Hér er annað video af klárnum af æfingu fyrir Stóðhestaveisluna núna í vetur: 


Annar spennandi hestur sem verður í girðingu hjá okkur er áðurnefndur Eldhugi frá Álfhólum, undan Kappa frá Kommu sem hefur verið að skila eftirtektarverðum afkvæmum að undanförnu og Gásku frá Álfhólum sem hefur skilað öllum afkvæmum sínum á tamningaraldri í góðan dóm (nema Eldhuga). Afar efnilegur foli sem virðist lofa góðu sem kynbótahestur ef eitthvað er að marka fyrsta afkvæmi hans.  Verð á folatolli með öllu er 70.000 kr.   ATH Áætlað er að Eldhuga verði sleppt í hólf 18 Júní og það væri gott þeir sem eiga pantað komi með hryssurnar sem fyrst.  Gerum samt ráð fyrir því að hægt sé að setja inn til hans.Eldborg Eldhugadóttir undan Dimmuborg frá Álfhólum.  


Íkon frá Hákoti verður einnig í girðingu hjá okkur og hægt að leiða undir hann. Verð á folatolli með öllu er 50.000 kr. Dimmir frá Álfhólum er í heimahögunum og verð á folatolli með öllu er 65.000 kr. Hægt að koma með meri hvenær sem er.Djarfur frá Álfhólum er mjög sjarmerandi 3ja vetra foli sem mikil spenna er fyrir, undan Dimmu frá Miðfelli og Herjólfi frá Ragnheiðarstöðum,  en það gerir hann að hálfbróður Dívu frá Álfhólum og Dimmis.  Hann er búinn að vera í húsnotkun í Hafnarfirði en það verður áfram hægt að komast í húsmál til hans í Sandhólaferju næstu vikuna og hann kemur heim rétt fyrir Landsmót. 14.06.2014 00:25

Landsmótsfarar

Það hefur kannski ekki verið lagt áherslu á magn hrossa í þjálfun þennan veturinn þar sem við báðar frænkurnar höfum jú verið aðeins uppteknar á öðrum sviðum, Hrefna í skólanum og Sara í barnauppeldi :) En það hefur ræst vel úr vorinu og greinilegt að við höfum nú verið að gera ágæta hluti í vetur með okkar hross. 

Hæst ber að nefna ævintýrahestinn, líkt og Bjarni á Þóroddstöðum kallaði Þrumufleyg okkar frá Álfhólum. Hann fór í úrtöku í B-flokki gæðinga hjá hestamannafélaginu Fáki núna í vor. Stóð efstur þar eftir forkeppni meðal jafningja í fyrna sterkum flokki klárhesta. Hann mun mæta galvaskur í B-flokkinn á LM og vonandi veita keppinautum verðuga keppni. Þorvaldur Árni Þorvaldsson reið Þrumufleyg forkeppni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir mjög góða samvinnu og frábæra sýningu á hestinum okkar.   


Mynd: Tekin á Stóðhestasýningunni í Ölfusshöll. Ljósmyndari: Gunnhildur Birna. 

Hrefna María og Kolka hennar frá Hákoti tóku einnig þátt í Gæðingakeppni Fáks og stóðu sig með prýði. Voru 5 eftir forkeppni og tryggðu sér Landsmótssæti með því. Þær létu ekki þar við sitja því eftir nokkra umhugsun var stefnan sett á kynbótadóm aftur. Já margir halda Hrefnuna hálf klikkaða að sýna svona hátt dæmda hryssu aftur ... og aftur.... og jú alltaf hækkar djásnið hennar og töluvert í þetta skiptið!! 


Þær stöllur áttu frábæra sýningu núna á Hellu í þessari vikur og fóru hvorki í meira en minna í 8,90 fyrir hæfileika og 8,51 fyrir byggingu. Aðaleinkunn upp á 8,74!!! Hrefna tók þá ákvörðun að mæta ekki í yfirlit þar sem hún sýndi seint á fimmtudegi og yfirlit strax á föstudagsmorgni. Þær vinkonur munu mæta á Landsmót ferskar og vonandi að þið munuð finna gustinn af þeim alla leiðina upp í brekku ;)  Stórkostleg meri hún Kolka sem virðist takmarkalaus. 

Sköpulag
Höfuð8
Háls/herðar/bógar9
Bak og lend9.5
Samræmi9
Fótagerð7.5
Réttleiki8.5
Hófar8
Prúðleiki8
Sköpulag8.51
Kostir
Tölt8.5
Brokk9
Skeið9.5
Stökk8.5
Vilji og geðslag9.5
Fegurð í reið9
Fet7.5
Hæfileikar8.9
Hægt tölt8.5
Hægt stökk7.5
Aðaleinkunn8.74


Geisja frá Álfhólum er 6 vetra klárhryssa undan Stála frá Kjarri og Gásku frá Álfhólum. Þær Sara áttu góða forsýningu í kynbótadóm núna á Hellu í þessari viku og bættu um enn betur í yfirliti og nældu sér í Landsmótsfarmiða í 6 vetra hryssum.   Sara var alveg viss um að þessi færi inná mót, því nóttina fyrir yfirlitið dreymdi hana hana Dívu sína og það gat ekki boðað annað en eitthvað gott, því bæði Díva og Geisja eru í sameign með þeim félögum Róberti Veigar Ketel og Sigurði T Sigurðssyni frá Hafnarfirði.

Hún hækkaði frá því í fyrra bæði í sköpulagi og hæfileikum. Flottur dómur en við teljum Geisju eiga eitthvað inni enn. Gaman verður að fylgjast með þeim tveimur á LM.  Kannski gaman að nefna það að Geisja er bara með léttustu tegund af hlífum þrátt fyrir að vera mjög opin klárhryssa (sumir vilja meina að hún sé vökur en þjálfarinn hefur ekki látið á það reyna ennþá) en afkvæmi Gásku hafa öll verið eðlishágeng og ekki þurft neina auka hjálp til að lyfta löppunum ;)

Sköpulag
Höfuð7.5
Háls/herðar/bógar8.5
Bak og lend8.5
Samræmi9
Fótagerð8
Réttleiki8.5
Hófar7.5
Prúðleiki6
Sköpulag8.2
Kostir
Tölt9
Brokk8.5
Skeið5
Stökk8
Vilji og geðslag9
Fegurð í reið9
Fet7.5
Hæfileikar8.1
Hægt tölt9
Hægt stökk8
Aðaleinkunn8.14


Og yfir í yngriflokkana. Álfhólahrossin verða nokkuð sterk í yngriflokkunum þetta Landsmót ef allt gengur eftir. 

Fyrst ber að nefna hana frænku okkar Selmu Maríu Jónsdóttur sem fékk hana Indíu frá Álfhólum lánaða hjá henni Hrefnu Maríu og reið henni af mikilli snild í efsta sæti í barnaflokki hjá Hestamannafélaginu Fáki í forkeppni og einkunn upp á 8,40 og úrslita einkunn 8,62. Glæsilegt það. Indía er 1stu verðlauna hryssa og farsælt keppnishross hjá þeim mæðgum, Hrefnu Maríu og Rósu. Vonandi eiga þær Selma eftir að láta finna vel fyrir sér í Barnaflokknum þetta Landsmótið. 


Gaman er að segja frá því að í sömu úrslitum var systir hennar Indíu, undan sömu meri henni Svertu okkar frá Álfhólum, hún Trú frá Álfhólum og náði hún og knapi hennar Sölvi Petersen einnig sér í Landsmótssæti. Aldeilis flottir og duglegir krakkar á fallegum merum :) 

Sara aðstoðaði 3 unga knapa fyrir úrtöku Geysis og þar eigum við eina flotta frænku hana Heiðu Sigríði Hafsteinsdóttur sem fékk hana Meyju frá Álfhólum lánaða hjá Söru.  Meyja er 6 vetra gripamikil klárhryssa undan Dimmir frá Álfhólum og út af gamla vindótta kyninu í Álfhólum. Fall virtist vera mikill fararheill hjá þeim Meyju og Heiðu en eftir smá hikst í fyrri umferð,  tóku þær stórgóða seinni umferð og náðu sér í örugga miða á LM. 2 sætið og einkunn upp á 8,32. Glæsilegt það, sérstaklega þar sem þær eru báðar algerir nýgræðingar á keppnisvellinum.  Innilega til hamingju Heiða okkar og hlökkum til að horfa á ykkur og hvetja á LM. 

Og okkur finnst nú við eiga aðeins í þessu pari. Þetta eru þær Sólrún Einarsdóttir og Íkonsdóttir hennar Élhríma frá Hábæ. Þær tóku þátt í ungmennaflokki Geysismótinu og nældu sér í LM miða eftir örugga og kraftmikla sýningu. Sólrún er hjá okkur í Álfhólum núna í sumar. Flottar og hæfileikaríkar báðar tvær. 


Ef okkur skjátlast ekki eru 2-3 önnur hross frá Álfhólum á leið á Landsmót í yngri flokkum, þau Þórunn Þöll og Mózart frá Álfhólum í ungmennaflokk fyrir Fák, Skyggnir frá Álfhólum og Hulda María Sveinbjörsdóttir í barnaflokk fyrir Sprett.   Svo eru Mökkur frá Álfhólum og Ingibjörg Rut Einarsdóttir séu með farmiða í unglingalokk fyrir Sóta en ekki víst að þau mæti.

Ekki með farmiða...Planið með það færu 3 vindóttar inná mót hjá stelpunum hennar Söru stóðst ekki alveg, það vantaði herslumuninn hjá Marie sem er búin að vinna á Álfhólum í vetur og Mánaglóð, eða kannski aðeins meiri þjálfun saman en hún hafði bara prófað hana 2svar eða 3svar fyrir mót en hún skrapp heim til Þýskalands í frí í tæpar 2 vikur og kom ekki aftur fyrr en tveimur dögum fyrir úrtöku.  Marie er fyrsti varaknapi í ungmennaflokk hjá Geysi svo það er ekki öll nótt úti enn ;)Eðalgripurinn Sólarorka stóð sig vel í vor, vann fjórganginn í opnum flokki á WR móti í Spretti á sínu fyrsta móti utanhúss.  Hún var einni kommu frá því að komast inná Landsmót fyrir Sprett með 8.44 í einkunn og þremur kommum frá því að komast inná mót sem kynbótahross en hún var sýnd af Söru í vikunni sem leið með 8.12 í aðalenkunn.  

Sköpulag
Höfuð7
Háls/herðar/bógar8
Bak og lend8.5
Samræmi8
Fótagerð8.5
Réttleiki8.5
Hófar8.5
Prúðleiki6.5
Sköpulag8.09
Kostir
Tölt9
Brokk9
Skeið5
Stökk8
Vilji og geðslag9
Fegurð í reið8.5
Fet8.5
Hæfileikar8.14
Hægt tölt8.5
Hægt stökk8.5
Aðaleinkunn8.12

Og stærsta vonarstjarnan hennar Söru hann Eldhugi (hálfbróðir Geisju) fer heldur ekki á neitt Landsmót heldur þetta árið.  Hann heltist úr lestinni í bókstaflegri merkingu í lok apríl, sneri sig á kjúku sem vonandi kemur ekki til með að há honum í framtíðinni. Hrikalega svekkjandi, en hann virðist allavega orðinn óhaltur núna og getur tekið á móti hryssum í Álfhólum í sumar.  Nokkrar brokkmyndir sem voru teknar í byrjun apríl.
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 316
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 1512
Gestir í gær: 403
Samtals flettingar: 1168893
Samtals gestir: 76884
Tölur uppfærðar: 15.7.2024 10:21:28

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]