Færslur: 2011 Október

18.10.2011 22:36

Létt yfirlit ársins 2011



Var í gamni að flétta upp í World Feng og skoða árangur okkar þetta árið.  Verð að viðurkenna að ég spái yfirleitt lítið í einkunnir fyrir þetta hitt, heldur reyni að gera mitt besta í það og það skiptið.
Fannst t.d frekar fyndið í vor þegar vinur minn hringdi í mig og sagði mér að ég mætti sko alls ekki sýna hryssuna sem ég var að fara að sýna, ég væri með svo hátt meðaltal á sýndum hrossum. Hann vissi nefnilega að ég hafði sagt að hún væri ekki tilbúin og færi ekki í fyrstu verðlaun þetta skiptið. Ég hló bara og sagðist ekkert vera að spá í því og sýndi hryssuna í sína 7.80 :)   Reyndar komst ég samt á lista, 3-4 sæti, í vor yfir þá knapa sem höfðu hæsta meðaltalið yfir sýnd hross, getum sagt að þar hafi verið gæði umfram magn, því hrossin voru ekki nema 7, annars er gömul frétt um þetta hér   http://eidfaxi.is/frettir/2011/06/mette-med-haesta-medaltal-thordur-med-flest-hross

Ég komst líka að því í þessari stuttu rannsókn að ég er ekki nema hálfdrættingur á við Hrefnu Maríu, en meðaltal hennar í kynbótasýningum ársins er tæplega 8.21.  Hún sýndi 3 hross Kolku frá Hákoti, Eirvör frá Hamrahóli og Grím frá Vakurstöðum, tvö alhliða hross og eitt klárhross.

Rúmlega 8.05 var hinsvegar meðaltal hjá mér á 8 sýndum hrossum sumarsins, en hlutfall klárhestana var hærra eða 5 á móti 3 alhliðahrossum. 

Svo fór ég að skoða hrossin frá Álfhólum og komst að því að það eru 11 hross sýnd á árinu með 8.01 í meðaleinkunn.  Tólfta hrossið Frumraun einnig skráð frá Álfhólum en er ræktuð af og í eigu Danna Smára og tilheyrir strangt til tekið ekki ræktun fjölskyldunnar og er því ekki tekin inní þennan útreikning.

Meðaltal hæfileika er 8.05, byggingu 7.94.  7 þessara hrossa eru klárhross, 4 með skeiðeinkunn. Af einstökum einkunnum er gaman að nefna að meðaltalið fyrir tölt er 8.68 :)

Meðalaldurinn er hins vegar ekki hagstæður í útreikningum og munar þar um 11 vetra gamla hryssu Flugu sem lækkar í dóm, og það gerir reyndar Gáski frá Álfhólum líka, 8 vetra gamall, en þessi hross eru fyrir löngu komin úr okkar eigu. Meðalaldurinn sýndra hrossa er því nokkuð hár, 6.90.

Svo maður haldi áfram að leika sér að tölum og tökum þau hross út sem við höfðum með að gera, þá voru það 8 hross og meðaltalið tæplega 8.10 í Aðaleinkunn, meðalaldurinn kominn niður í 6.25 og þar af eru 5 klárhross og 3 með skeiðeinkunn. Hæfileikaeinkuninn tæplega 8.14 og bygging 8.03.  



Dimmir hafði ekki farið í dóm síðan fimm vetra gamall þar til í sumar, en hann hækkar töluvert nú 8 vetra gamall, endar í 8.29 og með 8.57 fyrir hæfileika og er þ.a.l með hæstu hæfileikaeinkunn búsins og er annað hæst dæmda hross frá Álfhólum þó byggingareinkunn hjálpi lítið til við það.



Díva hálfsystir hans er hæst dæmda hrossið, en aðaleinkunn hennar var 8.33 og þar munaði um tíutvennuna fyrir tölt og vilja, 8.54 fyrir hæfileika. 



Klárhryssan Gjóska hækkar og fær 8 í einkunn, 8.05 fyrir hæfileika.



Sóllilja 6 vetra klárhryssa sýnd í fyrsta skipti með 8.15, 8.14 fyrir hæfileika.


Gæska 6v klárhryssa sýnd í fyrsta skipti vetra með 8.00



Indía 6 vetra  sýnd í fyrsta skipti 7.92



Þrumufleygur er 5 vetra hækkar dóm sinn frá því fjögurra vetra töluvert og hefur þriðju hæstu aðaleinkuninna 8.27, 8.42 fyrir hæfileika



Klárhryssan Gáta 5 vetra sýnd sína fyrstu ferð í 7.80


Þetta eru ekki hávísindalegir úteikningar en það getur verið gaman að spá í þetta. Kannski eru einhverjar vitleysur í þessum útreikningi, því talnagreind er greind sem mér var ekki gefið sérlega mikið af ;)

Já og vindótta folaldið efst á síðunni, er "wannabe star" undan Þrumufleyg og Móey Eldjárnsdóttur, hestfolald.

01.10.2011 23:22

Hámarks hagnaður hlutabréfa!

Smásaga um Rósu hestheppnu og hrossakaupin hennar.
Kona sem hefur aldrei tapað á hestakaupum!

Skrifað af Hrefnu Maríu.

Það var einn sumardag að við sátum inn í kaffi í Álfhólum, farið var yfir stöðuna í hrossamálum, spáð og spekúlerað í stóðhestum og hryssum eins og gengur og gerist meðal hestamanna á þessum tíma ársins. Íkon hennar mömmu (Rósa Valdimars, móðir systir Söru) barst þá í tal og var mamma með það á hreinu að hann væri besti hestur á Íslandi... hún lét dæluna ganga um að þetta væri sko mesti og besti gæðingur sem hún hafi nokkurn tíman komið á bak, rýmið og gangtegundirnar væru bara engu líkar og í ofan á lagt væri hann traustasti hestur sem hún færi á bak. Geðslagið frábært. Þegar kellingin byrjar á þessu mali sínu um hestinn sinn eigum við bara til að loka eyrunum og nennum ekkert að spá í þessu rausi henni meir.  Mamma endar svo á því að spyrja Leó Geir sem sat þarna yfir kaffibolla með okkur, "Andskotinn Leó  ég verð að eignast annað svona hross! Er ekki til eitthvað undan honum ?". 


Rósa á Íkon sínum, þarna sigurvegarar Firmakeppni Fáks 2011 

Leó seldi okkur á sínum tíma hann Íkon þegar hann var aðeins 5 vetra. En Leó og Markús í Hákoti eru góðir vinir og auðvelt að forvitnast um Hákotshrossin í gegnum hann. Þá hrynur í Leó... " hmm Rósa það er til ein brún hryssa undan honum, niður í Þykkvabæ. Hún er 2 vetra og undan góðri hryssu !!  "Ertu í alvörunni að meina þetta?  'Eg get þá athugað þetta fyrir þig"
  
Þá kviknar í gömlu eitthver neisti og hún segir já athugaðu hvort hún sé föl og svo framvegis.  Svo líður og bíður og þetta mál er hálf gleymt í nokkrar vikur. Þangað til mamma fer að lofa hestinn sinn aftur og fer að spyrja um hryssuna.  Leó segist þá fara í málið að alvöru. 

Samið var um verð og við Sara voru hreint og beint lítið hrifnar... "Hvað er kellingin að fara kaupa eitthvað djöf... trippi í kartöflugörðunum óséð á jú ágætispening miðað við aðstæður" ... heyrðist nokkrum sinnum í Söru " Geturu ekki bara keypt eitthvað af mér, þarftu að vera spreða peningunum í einhvern annan?"... og svo í framhaldi hjá mér "Mamma ég nenni ekkert að vera temja eitthvað dót sem þú ert að kaupa, ég hef nóg að trippum að sinna!"

Það leið svo að hausti 2008 að mamma átti að fara gera upp merina, eitthvað dróst það þangað til Leó fór að rukka frúna, þá dreif hún sig út í banka og losaði út nokkur hlutabréf sem hún hafði átt í bönkunum og greiddi merina. Einungis nokkrum dögum síðar hrundi bankakerfið á Íslandi og í staðinn fyrir að eiga innistæðulausan hlutabréfapappír átti hún núna hana KOLKU!  
Þann sama dag og mamma greiddi hryssuna hringdi Leó í þá gömlu í vinnuna en hún náði ekki símanum og las inn á símsvarann hjá henni "Rósa þetta er gjöf en ekki sala"!!! ...Kokhraustur var hann en hlýtur að hafa meint að hryssan væri svona gríðarlega góð, en Rósa var ennþá grunlaus um þetta happ að hafa borgað hryssuna með peningum sem annars væru horfnir og hryssan í sjálfu sér gjöf :)
 
Kolka fékk að ganga heima í heimahögum þar til hún komst á tamningaaldur. Um haustið 2009 dreif ég mig svo niður í Þykkvabæ að sækja hryssuna þegar hún var 3 vetra og átti að byrja í frumtamningu. Gleymi því ekki að ég var svona ´´nett" pirruð að þurfa vera vesenast þetta fyrir hana móður mína að sækja eitthvað helv... trippi sem henni hefði dottið í huga að kaupa... óséð... og enginn hafði trú á fyrir utan hún og Leó. 

Þegar ég kom á staðinn hélt Markús í þessa undurfögru skepnu, risastór og gullfalleg biksvört hryssa sem minnti helst á arabískan gæðing. Augun duttu nánast út úr andlitinu á mér "ER ÞETTA HRYSSAN?!"  uhhh " Já takk við tökum þessa, takk!"

Kolka kom úr heimahögunum vel væn, stór og þroskuð. Frumtamningin gekk afar hratt og endaði ég með að hringja í Markús og fullvissa mig um að ég væri með rétt hross og þá hvort hann væri örugglega ekkert búin að eiga við hana. Hún hagaði sér eins og nokkuð tamið hross og tók öllum þáttum tamningarinnar eins og stálpað tamið hross. Nema það var svolítið fyndið að það var eiginlega ekki hægt að hringteyma hana, henni fannst það bara eitthvað fáránlegt að hlaupa svona í hringi og þá var bara ekkert annað í stöðunni heldur að leggja á og skella sér á bak og elta sem henni fannst mun skemmtilegra og sótti strax mikið fram :)

Kolka var afar fljót til og minnist ég þessa að hafa kvótað á facebook eitt kvöldið að ég hafi unnið Landsmót á henni í einum reiðtúrnum á 4 vetur. Sem var náttúrulega slegið fram í gamni en lýsir þó því að hún var einstakt trippi í tamningu og þjálfun. 

Stóð til að sýna hana á 4 vetur en hún veiktist á hrossapestinni nokkrum dögum fyrir sýningu og ekkert úr varð. Þannig að núna í vor var hún sýnd í fyrsta sinn í Víðidalnum 5 vetra gömul og fór í frábæran dóm 8,39 fyrir byggingu og 8,50 fyrir hæfileika, aðaleinkunn upp á 8,46. 


Ég og Kolka í Vorsýningu í Víðidalnum 2011. Mynd Krissa Auðholtshjáleigu

2 vikum fyrir sýningu var haldinn úttekt á okkur Kolku. Vinkona mín hún Heiða Dís og Jonni fengu heiðurinn... "Hrefna þessi hryssa fer í 8,50, en hún er bara alltof feit!!" já hreinskilna Heiða Dís skafar ekki af hlutunum. Þá fékk ég svona staðfestingu á því að þetta gæti nú farið kannski vel en hvað á ég að gera í fitunni á hryssunni? ... hún er að fara í dóm eftir 2 vikur? Hún þarf nú helst bara að komast í rekstur, ég eyðilegg hana ef ég fer að hossast meira á henni ;/ Brá ég þá á það ráð að hringja í hana Kristbjörgu á Jaðri og skutla hryssunni til hennar, hún er með rekstrar hring sérhannaðan fyrir fitubollur og prinsessur. Fékk hana svo í bæinn og hvíldi í 3 daga og svo beint í sýningu. 


Augnakonfektið og Drottninginn Kolka. 8,5 háls, 9,5 bak og lend, 9 samræmi. 8,39 í byggingu. Finnst hún mætti nú alveg fá 9 háls og herðar hóst hóst !!!

Daginn sem ég sýndi var ekki mikið unnið, get viðurkennt það. Ég hafði engan til að hjálpa mér í byggingardóm og því lá ég í símanum í mömmu um að drífa sig heim úr vinnunni og koma með mér í byggingardóm... sem var nú eitt bíó atriði út af fyrir sig. Við mamma saman inn í byggingardóm, drullu stressaðar! Og vorum svo hræddar um að dómararnir myndu ekki finnast hún jafn falleg og okkur ! Þeir sem þekkja mig og mömmu vita að við verðum hálfklikkaðar í stressi svo við vorum örugglega gott skemmtanagildi fyrir dómarana. "Shit mamma helduru að þeim hafi ekki örugglega fundist hún falleg ?" ... kurraði í mér þegar ég labbaði upp í hús með hana....  jújú 8,39 í byggingu og þó fannst mér þeir hefðu alveg getað gefið henni 9 fyrir háls :)

Á Landsmótinu blómstraði hún, þó svo aðstæður væru hrikalegar í fordómi gífurlegt rok og suddi. Þakkaði ég guði fyrir að vera með nokkuð þægt og traust trippi en enginn aðstaða er til að klifra á bak þarna á melunum ef þú þurftir örlítið aðhald. 


8,58 í hæfileikum og aðaleinkunn upp á 8,51. Hæst dæmda 5 vetra hryssan á Landsmóti og yfir árið :) Mynd. Jens Einarsson


Þrumufleygur á LM. Eigandi hans er að sjálfsögðu Rósa Valdimarsdóttir.  Mynd: Kolla Gr. 

Drottningin Kolka hefur það gott núna út í mýri með vinum sínum.  En Kolka var leidd undir Þrumufleyg frá Álfhólum í sumar og fósturvísirinn var færður yfir í aðra hryssu. Á hún því von á erfingja næsta sumar en hún sjálf verður inni í vetur, væntanlega í drottningar dekri hjá Frú Rósu og til sýnis fyrir gesti og gangandi í Víðidalnum :) Stefnan er jú auðvitað svo tekinn á Landsmót 2012 á heimavelli!

Þetta er ekki í eina skiptið sem hestakaup hafa farið vel hjá frúnni, Sara segir hana ætíð hafa hagnast vel á sér þegar þær hafa haft skipti á hrossum. Sem er hið besta mál enda ekki annað hægt en að hafa kellinguna vel ríðandi. 

Eftirmáli

Skrifað af Söru Ástþórsdóttur.

Það má við þetta bæta að Rósa var ekki síður heppin þegar Íkon sjálfur rak á fjörurnar hjá henni, en ég var búin að spotta þennan hest út fyrir vinkonu mína sem vænlegan kandidat í unglinga og ungmennaflokk og þá væntanlega með það í huga að hann yrði geltur.  Hrefna komst á snoðir um þetta, brunaði niður í Kanastaði, prófaði hestinn og gekk frá kaupunum "einn, tveir og bingó", þetta var sko fullkominn hestur fyrir mömmu hennar, en Hrafnar frá Álfhólum,  gamli keppnishesturinn hennar var kominn til ára sinna.   Þetta var árið 2007.  Íkon fékk fáeinar "guggur" til selskaps um sumarið og ég varð að viðurkenna það hvort sem mér líkaði betur eða ver, að folöldin undan honum voru lipur og flott að sjá, og ég síðan hef verið að lauma inn fleirum og fleirum hryssum til hans ;)



"Konni litli" eins og við köllum hann stundum hefur kannski ekki fengið mikla náð fyrir augum kynbótadómara, en er þó með 9 fyrir tölt og hefur farið hátt í töltkeppnum og Rósa verið afar sigursæl á honum, flugrúmur og taktviss, hraðabreytingarnar góðar.

 Það vita þó kannski færri að hann fæddist seint í september eða byrjun október, og heilsaðist mjög illa folaldsveturinn, sífellt með drullu og varð hálfgerður vesalingur sem rétt tórði á lífi.  Það er klárt mál að þessi veikindi drógu mjög úr þroska og hann var fremur lítill og ósjálegur framan af aldri.  Hann telst ekki til fótahárra hesta, en er hins vegar að gefa frá sér fótahæð og gott samræmi, sbr Kolku og mörg tryppin undan honum hér myndarleg og ekki að sjá að hann sé heldur að erfa sjö fimmuna fyrir frampartinn mjög sterkt frá sér ;)



Það var ánægjulegt að fá þessa fínu hryssu undan Íkon og Nótt, rígfullorðinni meri sem okkur langaði einmitt í hryssu undan áður en hún færi.



Rósa hélt svo Þyrnirós undir Íkon í fyrra.  Við Hrefna hristum hausinn yfir því í fyrra að vera að spandera svona góðri hryssu undir annarra verðlauna hest, en við steinhöldum kjafti núna ;)



Svo erum við með eina gamla hryssu, Rauðhöttu, í áskrift hjá Íkoni, hún á eiginlega bara falleg folöld með honum. Þessi heitir Rjóður og er veturgamall á myndinni, var seldur folald til Finnlands. Og rauðblesótta hryssan sem er efsta folaldamyndin og hér fyrir neðan Skjóni litli sem hún eignaðist í fyrra :)



Já, litlir ljótir andarungar geta átt fallega svani ;)


Til hamingju með afmælisdaginn Rósa!!!! 


  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 889
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 707
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 1514263
Samtals gestir: 97103
Tölur uppfærðar: 3.11.2024 14:02:41

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]