Færslur: 2009 Desember

24.12.2009 15:06

Gleðileg jól!
Óskum öllum lesendum heimasíðu Álfhóla gleðilegra jóla og hamingjuríks nýs árs!


Að halda úti lifandi heimasíðu er alltaf nokkur vinna, en það virkar óneitanlega hvetjandi að það er stór hópur af áhugasömum lesendum og viðskiptavinum sem fylgist reglulega með og ekki skemma fyrir öll skemmtilegu kommentin frá ykkur allt frá byrjun og allar góðu kveðjurnar í gestabókinni. 

Takk kærlega fyrir okkur og njótið jólanna!


11.12.2009 23:50

Beðið eftir kraftaverkiSlysin gera ekki boð á undan sér, það ætti ég að vera farin að vita manna best.  Við eftirlit fyrir rúmri viku síðan fann ég uppáhalds mertryppið mitt, hina tveggja vetra Dimmuborg Braga og Dimmudóttur draghalta í haganum.  Eftir meðhöndlun í rúma viku virtist heldur lítill bati sjáanlegur nema hún er ekki eins kvalin og hún var fyrstu dagana.  Við nánari skoðun virðist hún vera úr mjaðmalið sem er afar sjaldgæft að komi fyrir hross en því miður eru þá batahorfur líka afar litlar. 

En við dýralæknirinn erum ekki á því að gefa upp vonina fyrr en í fulla hnefana, og ekki Dimmuborg litla heldur, sem er afar lífleg og glaðleg til augnanna þrátt fyrir að vera hálfgerður fangi í eigin líkama ef svo má segja. Hún stígur í fótinn með töluverðum þunga en á afar erfitt með gang og hún á heldur ekkert að hreyfa sig í þónokkurn tíma ef hún á að eiga einhvern möguleika á að hafa það af. Já, hafa það af og geta mögulega einhvern tíman eignast folald því hún mun að sjálfsögðu aldrei koma til með að bera knapa né hlaupa svona stolt um hagana.  Ef hún væri ekki sú sem hún er, þá væri búið að láta hana fara.  En það er nú einhvern veginn þannig að það kemur aldrei neitt fyrir hrossin sem maður gæti séð af, örugglega einvhverjir sem kannast líka við það.

Hvernig þetta gerðist er okkur hulin ráðgáta, ólíklegt er að hún hafi fengið spark svona ofarlega með þessum afleiðingum, ekki hefur hún fest sig neinsstaðar þvi enginn er áverkinn annarsstaðar á fætinum nema á mjaðmaliðnum.  Dottið á ís er mín líklegasta kenning en annars er ég alveg "lost" með að finna ástæðuna.

En þó að beðið sé eftir kraftaverki er ekki þar með sagt að maður geri ekkert annað, þó svo óneitanlega taki svona leiðindi alltaf orku frá manni.

Gæðingarnir, ja eða aðeins meiri og fleiri gæðingar sem voru þegar heima, eru að týnast inn og á skeifur smátt og smátt.
 


Stóru systkini Dimmuborgar eru komin inn, og komin af stað í þjálfun, Dimmir og Díva, já Díva var líka folald einu sinni og það mátti fá hana til að lyfta líka í mýrinni ef þúfurnar voru nógu miklar!En það fundust því miður engar nógu stórar þúfur hér í Landeyjunum til að fá Dimmir til að lyfta í þegar hann var folald, og því eru ekki til neinar folaldamyndir af kappanum.  Hann skánaði heldur þegar var farið að temja hann og byrjar bara mjög skemmtilega nú í vetur.  Gallinn við hann Dimmir er að hann er bara svo skemmtilegur útreiðarhestur að maður gleymir alveg að æfa undirstöðu smáatriðin sem skipta svo miklu máli þegar í harðbakkan slær.   Þannig að markmiðið með hann i vetur er... markvissari þjálfun! !    Af því að ég veit að þessi hestur getur svo mikið meira heldur en ég hef náð að sýna hingað til.Máttur frá Leirubakka, stór og stæðilegur Keilissonur sem ég sýndi og keppti á síðsumars er komin á járn aftur og er líka eitt af skemmtilegu verkefnum vetrarins.  Efnilegur fimmgangangskeppnishestur sem á jafnvel erindi í töltkeppni og á auk þess töluvert inni í kynbótadóm að mínu mati og nokkurra annara.Og draugahesturinn úr síðustu færslu, Sóllija síkáta er komin í framhaldsþjálfun.  Síkáta segi ég, hún er reyndar frekar þungbrýnd á þessari mynd, er eitthvað að píra augun á móti kvöldsólinni.  Hún hefur alveg einstaklega aðlaðandi persónuleika þessi hryssa og það liggur við að maður þurfi ekki að kveikja ljós þegar hún er í hesthúsinu, það lýsir svo af henni!  Svo spjallar hún við okkur allan daginn, já nú er Sara alveg að missa það hugsar sjálfsagt einhver ;)  Nei án gríns þá kumrar hún látlaust á mann allan daginn þegar maður gengur um nálægt henni,  eins hún sé alltaf að reyna að segja mannni eitthvað merkilegt. ( Og hugsar sjálfsagt, "Ohh, djöf..... eru þær vitlausar að geta ekki skilið hvað ég segi")

Verena var með þessa hryssu í frumtamningarprófinu í fyrra og tók besta prófið á hana.  Fékk 10 fyrir æfinguna laus í hringgerði, sem væri svo sem ekkert eindæmi nema það að það var ekkert hringgerði komið upp hjá mér í fyrra!  En Sólliljan dansaði í kringum Verenu eins og það væri ósýnilegur spotti á milli þeirra.

Þar sem hún er ekki fædd fyrr en um miðjan ágúst, þá var ég ekkert að drífa mig með hana en hún er nú á góðri leið í gangsetningarferlinu og ekki þarf að kvarta yfir fótaburðaleysi hjá henni. 

Já, það eru næg verkefnin í hesthúsinu til að dreifa huganum á meðan beðið er eftir kraftaverki.
  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 19689
Gestir í gær: 330
Samtals flettingar: 1214182
Samtals gestir: 79423
Tölur uppfærðar: 25.7.2024 02:30:21

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]