Færslur: 2008 Maí

29.05.2008 02:41


Já hakkavélarnar unnu sitt starf á Hellu,  geldingadómur er fallin yfir "síðasta hornfirðingunum í dalnum" eins og ég kalla hann stundum uppá grín.

Hann gerði sitt besta greyið, beitti sér vel í brautinni og uppskar 1st verðl. fyrir hæfileika, 8.09 og vann fyrir hverri einustu tölu og töldu hann sumir eiga eitt og annað inni, t.d fyrir tölt og stökk og ég veit að hann getur skeiðað betur en þetta, en það hefur svo sem aldrei staðið "Sara vakra" á enninu á mér!
Eitthvað var hann afundin hins vegar í byggingadómnum og neitaði að standa eins og honum hafði verið kennt, gúmmímotturnar voru allt í einu hræðilegar sem hann átti að standa á, hann sem er aldrei hræddur við neitt.  En byggingadómur uppá 7.70og eitthvað var raunin, vægast sagt ekki ánægð með það, ekki síst 7.5 fyrir frampart og einungis 8 fyrir bak þar sem ég hélt að væri heilum hærri fyrir, samræmiseinkunina vildi ég sjá hærri líka og hófa.  En ég hef sagt það áður að ég hef ekkert vit á hrossum og skal bara þegja. 

Hafa svo vit á því að kalla í dýralækninn á eftir til að afgreiða málið og halda svo bara undir Gára frá Auðholtshjáleigu,  hann passar í kerfið segja þeir.

Ég var ekki sú eina sem lenti í "hakkavélinni"  Það duttu allavega tveir hestar úr fyrstu verðlaunum í þessu sama holli og væntanlega engin gleði yfir því heldur.


Svona fyrir þá sem vilja berja gripinn augum áður en dýri mætir með stóru tangirnar, þá skellti ég sýningunni hérna inn.

Smá viðbót, dómurinn fyrir yfirlit,  fyrir þá sem hafa ekki aðgang að WF.

 

Héraðssýning á Gaddstaðaflötum


Dagsetning móts: 19.05.2008 - Mótsnúmer: 04

Íslenskur dómur

IS-2003.1.84-674 Dimmir frá Álfhólum


Sýnandi: Sara Ástþórsdóttir


Mál (cm):

143   133   137   64   144   39   48   44   6,7   31,5   18,5  

Hófa mál:

V.fr. 9,3   V.a. 8,6  

Aðaleinkunn: 7,95

Sköpulag: 7,74

Kostir: 8,09


Höfuð: 7,5
   Holdugt höfuð   Krummanef  

Háls/herðar/bógar: 7,5
   Reistur   Lágt settur   Djúpur  

Bak og lend: 8,0
   Breitt bak   Beint bak   Grunn lend  

Samræmi: 8,0

Fótagerð: 8,0
   Mikil sinaskil   Þurrir fætur  

Réttleiki: 7,5
   Framfætur: Útskeifir  
  Kýrfættur

Hófar: 8,0

Prúðleiki: 6,5

Tölt: 8,0
   Rúmt   Taktgott  

Brokk: 8,5

Skeið: 7,5

Stökk: 8,0
   Ferðmikið   Takthreint  

Vilji og geðslag: 8,5
   Ásækni  

Fegurð í reið: 8,0

Fet: 8,0
   Framtakslítið  

Hægt tölt: 7,5

Hægt stökk: 6,0

27.05.2008 01:44

Vor í lofti


Jæja, kynbótasýningar í algleymingi og allir að fara á taugum. Hross skráð á lágmark 3 sýningar, það skal ein takast! Já, nú eru allir á límingunum, dómarnir ósanngjarnir og þar fram eftir götunum, Landsmótsár....... 

Annars hef ég ekki mikið fylgst með þessum sýningum, kíkti á stóðhestana á yfirlitinu á föstudaginn og komst að því að ég hef ekkert vit á hestum.  Hestar með 8,5 fegurð í reið, hundómerkilegir og aðrir einungis með 8 sem voru puntulegir og meira spennandi.  En þetta er svona, manni er ekki ætlað að skilja allt.  Sá hestur sem mér fannst mest spennandi var Ómur frá Kvistum, hnaut um hann í Ölfushöllinni um daginn líka, það loftar vel undir þann klár.

Hjá mér er þetta orðið eins og sagan um 10 litla negrastráka, þeim fækkar alltaf þeim hrossum sem ég stefni með í dóm, nú eru einungis 3 eftir, þar sem Villimey týndi skeiðinu fyrir stuttu og þá er ekki mikið eftir. 
Sú móskjótta undan Gásku gafst upp fyrir fitupúkanum í apríl og var parkerað, rétt eins og  Parkersdótturinni sem fór í pásu og svo í úlfatanntöku en þær höfðu verið að ergja hana eitthvað.
  
 Atorka fór í sömu aðgerð en ég ætla samt að reyna að sýna hana í Hafnafirði.  Þurfti að þjálfa hana beislislaust um daginn, á snúrumúl,  það var ákveðið stjórnleysi í fyrsta reiðtúrnum, en í þeim næsta lagði ég hana þann besta sprett sem hún hefur tekið og ég hugsaði með mér að það væri nú ljótan ef ég þyrfti að sýna hana á snúrunni!!  Og ég sem hef ekki mikla trú á þessu beislislausa dóti sem verið er að troða inná fólk, vil meina að það eigi að fara á námskeið, því árinni kennir illur ræðari, töfralausnir séu ekki til og beislisvandamál liggi í vankunnáttu knapans oftast. 

Burtséð frá því , þá fór alsystir Atorku í byggingadóm um daginn, hún Aríel, en hún var seld fyrr í vetur. Eitthvað hefur nýjum eiganda hennar ekki líkað við nafnið og því hét hún því fína nafni NN frá Álfhólum fyrir dómi.  En allavega, hún fór í 7.98 og var ég frekar hissa á því, vegna þess að tvær systur hennar sem ég taldi töluvert síðri í útliti fóru í 1st verðl fyrir byggingu.

Atorka er ein af þessum Tígurbörnum sem hefur þessa frábæru lund á alla kanta.  Ofsalega ljúf og þægileg í umgengni og á húsi en alveg sprengviljug.  Alger klaufaskapur í mér að hafa ekki sett hana í þessa úlfatanntöku fyrr því þær voru svo greinilega að eyðileggja þjálfunina í vetur. 

Dívan með vind í faxið eins og hinar dívurnar í Júróvision! Stefnan tekin á Hafnarfjörð, hvað sem verður.
Dimmir mætir líklega í hakkavélarnar á Hellu í lok vikunnar ef ekkert kemur uppá. 

Mátuðum völlinn um daginn, alltaf töluverð breyting að fara af mölinni heima yfir á hvítan völl með allt öðruvísi viðnám, get engu spáð með það hvernig þetta á eftir að ganga.

En ef allt fer á versta veg, get ég huggað mig við það að Ráðunautin hafa ekki alltaf rétt fyrir sér....
.
.....ekki frekar en þegar hann Móflekkur minn fékk heldur lakan dóm, svona miðað við annað.  Að sjálfsögðu tók ég ekkert mark á því, var sannfærð um að þarna færi sterkbyggð og öflug kind, sem kom svo berlega í ljós þegar afkvæmin skiluðu sér.  Besta lífgimbrin undan honum og fallþungi lambanna undan honum 2 kg yfir meðaltali bússins!!!  Sjálfur vó hann 90 kg veturgamall, 20 kg þyngri en spjátrungshrútur sem "Ráðunautin" voru svo hrifin af.

Og gefur þar að auki svona hrikalega krúttleg lömb!

Eitt folald bættist í safnið í gær, jörp hryssa undan Tíg og hryssu undan Hrannari frá Kýrholti, ánægð með að fá meri.
Vel við hæfi að setja inn mynd af gamla ljóninu sem við tókum um daginn þegar við vorum að ragast í hrossum.  Og minna kannski þá "sérvitringa" sem vilja halda undir hann, að hann verður ekki eilífur.  Þetta verður kannski síðasta sumarið hans en hann er búinn að vera óvenju slæmur í slasaða fætinum í vor og verður ekki hafður þannig endalaust.  Folatollur undir þann gamla kostar 40.000 innifalið vsk, ggj. og 1 sónar.


Og svo í lokin af því að það er alltaf gaman af litlu folöldunum, þá fékk Leó þessa sætu bleikskjóttu hryssu undan Hruna frá Breiðumörk og hryssu sem hann á undan Heljari frá Stóra-Hofi, flottri meri sem slasaðist illa og var aldrei sýnd. 

12.05.2008 09:42

Fyrsta folald ársins og fleira.

Það eru sumir orðnir langeygðir eftir einhverjum hestafréttum, og lái ég þeim það svo sem ekki.  En fyrir þá sem hafa áhuga á sauðburði, þá er hann langt kominn

Móeiður kastaði loksins 10 maí eftir rúmlega viku bið, og var djásnið móálótt hryssa, eigendunum til mikillar ánægju, þrátt fyrir að vindótta litinn vantaði.  Faðirinn er Stáli frá Kjarri.  Á þessum myndum er hún nýstigin upp úr karinu og er að finna spena í fyrsta skipti.
Ég var svo óheppin að hlaupa með batteríslausa myndavél með mér þegar ég sá að hún var að kasta, og náði þ.a.l engum myndum af því, en þetta er í fyrsta skipti sem ég varð vitni að því þrátt fyrir að hafa búið í sveit alla mína ævi!  Þær eru ekkert smá snöggar að þessu, það leið ekki mikið lengur en korter frá því að ég sá að hún dró sig úr hópnum sem hún var í og folaldið leit dagsins ljós, engin smá átök á ferðinni.

Fyrsta afkvæmi Móeiðar, Móey Eldjárnsdóttir er inni í  grunntamningu þessa  dagana,  ekki seinna vænna enda að verða 3ja vetra og aldrei verið snert

Móey er ekki mjög stór en hún tekur vel til sín þegar hún er komin á ferðina og stækkar um helming,  fasmikið og kröftugt tryppi og ekki ósennilegt að hún sé alhliða, er allavega opin til gangsins. 

Þar sem það eru sömu eigendur að nýja folaldinu hennar Móeiðar sem eiga helminginn í bæði Móey og Dívu,  þá var lagt á Dívuna enda sumir sem aldrei höfðu séð hana undir manni áður.
Það var keyrt með og skellihlegið í bílnum, kannski ekki skrítið enda atvinnugrínisti  með í hópnum.


Og hann kenndi einum ungum graðhesti að hneygja sig á nokkrum mínútum og var harðákveðinn í að kippa honum með í leiksýningu á stóra sviðinu.  Þeir voru afar hrifnir hvor af öðrum enda ekki skrítið, Pálmi Gests með myndarlegri mönnum landsins og..

...folinn ungi hreyfingamikill og kröftugur.  Hann er ennþá ójárnaður hjá mér, ég er svo hrædd um að hann skjóti tamningakonunni uppí rjáfur þegar hann fer á skeifur, nóg er spyrnan og krafturinn hjá honum járnalausum!  Þessi foli er undan Mær Mónu og Pegasusdóttur og Tígur gamla.

02.05.2008 14:43

Það er gömul mýta að halda því fram að Landeyjarnar séu ljótar, engin fjöll og ekkert skraut.  Hér eru tvær myndir teknar heiman frá mér í kvöldsólinni í apríl og dæmi hver fyrir sig.

Eyjafjallajökull og glyttir í Mýrdalsjökulinn vinstra meginn.

Og drottningin, hún Hekla.

Ég segi fyrir mig að mér finnst alltaf sunnlensku fjöllin flottust og eins og með falleg málverk þá njóta þau sín best þegar horft er á þau úr ákveðinni fjarlægð.

Sauðburður byrjaði hér rétt eftir 20 apríl en þá báru um 15 kindur eftir einnar náttar ævintýri við hrút sem stökk úr hólfi hjá okkur, ekkert smá öflugur tappi!  Svo byrjuðu sæðingakindurnar rétt fyrir mánaðarmót og nú hafa tæplega 50 kindur borið.  Langflestar tví og þrílemdar eins og þessi sem bar í gær.

Allir að sofa, voða krútt.

Vaknað af værum blundi og best að drífa sig í mjólkina, fyrstur kemur, fyrstur fær!!

Þetta er náttúrulega ljóta ruglið að vera að brasa í þessum rollubúskap og láta það draga frá sér alla orku á versta tíma, en samt... er pínu gaman líka!

  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 1557
Gestir í dag: 167
Flettingar í gær: 2895
Gestir í gær: 453
Samtals flettingar: 1179512
Samtals gestir: 78153
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 14:00:52

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]