Færslur: 2007 Desember

24.12.2007 23:13

Jólakveðja


Sendi öllum ættingjum, vinum og velunnurum mínar bestu jólakveðjur og óskir um hamingjuríkt komandi ár!
Sérstakar kveðjur fá þeir sem hafa staðið að framkvæmdum með mér og hjálpað til við að gera draumaaðstöðuna að veruleika. Einnig allir þeir sem sent hafa mér velfarnaðaróskir á meðan framkvæmdum hefur staðið, takk takk.

Want to whish all my friend and customers merry christmas and a happy new year!  See you hopefully in Álfhólar next year!

19.12.2007 01:20

Næturvaktin

Jæja þá, ætli það sé ekki kominn tími á smá skrif.   Ekki það að það hafi verið mikið að gerast að undanförnu, en samt er einhvern veginn alltaf nóg að gera.  Ég var nú farin að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði af því að Landstólpakallarnir sem voru að reisa húsið létu sig hverfa í byrjun des og létu ekki sjá sig aftur fyrr en í gær, tvær vikur sem fóru í gúanóið.  Og það vita þeir sem hafa staðið í framkvæmdum að maður verður alveg afskaplega mikið óþreyjufullur yfir því að verkið klárist og ekkert er eins böggandi eins og að þurfa að bíða.  Það átti eftir að setja hurðir og glugga þannig að það var erfitt að vinna innivinnu sem þarf að gera svo hægt sé að taka "kofann" í notkun. 

En það má samt segja að það sé unnið dag og nótt. Ég var einmitt í nótt að vinna til 7 í morgun, já alveg galin eða það hélt í það minnsta Baldur smiður þegar hann mætti í vinnu kl. 7 og sá mig með pússningarbretti í reiðhöllinni kófsveitta. Hann var nú fljótur að giska á að ég væri ekki farin að sofa frekar en að ég hefði rifið mig svona snemma á lappir enda ekki sú árrisulasta sem um getur.  Ástæðan fyrir þessari yfirvinnu minni var að ég var að setja steiningalím á stóra vegginn í reiðhöllinni um kvöldið, eða réttara sagt hann Ómar sem hefur verið að grípa í vinnu hjá mér annað slagið.  Vegna þess hvað það ringdi mikið, var svo mikill raki í loftinu, enda ekki búið að loka nema hluta af húsinu, þá þurfti ég að bíða til hálf tvö um nóttina til að geta byrjað að pússa vegginn.  Múrarinn farinn í bæinn og ekki annað hægt að gera heldur en að bretta upp ermarnar og pússa skrattans vegginn þó svo það sé varla hægt að segja að maður hafi gert svona áður.    En sem sagt þettta tók sinn tíma, en bjargaðist

Verð nú að segja það að standa í svona framkvæmdum er hinn mesti skóli, svo margt sem maður vissi ekkert um áður en veit töluvert um núna. Hef verið að gantast með það að vera á mála hjá vinnumiðlun, svo hringir einhver og biður um múrara, þá mæti ég. Næsta dag hringir einhver og biður um pípara, smið osfr og alltaf mæti ég. Nei ég er nú í einhverjum svefnleysisgalsa núna en þetta fyrirkomulag er engu að síðu staðreynd þegar vinnumiðlunirnar eiga í hlut, þá senda þær sama manninn til allra verka þó svo hann kunni lítið sem ekki neitt í neinu, ja þetta er alla vega það sem "starfsmenn á plani" tala um.


13.12.2007 15:30

Nýtt lén!

Örtilkynning frá tímabundna vefstjóranum.

Heimasíða Álfhólabúsins hefur fengið nýtt lén, www.alfholar.is.

Vinsamlegast festið nýja lénið í minni og þið sem hafið linkað síðuna megið endilega breyta linknum í samræmi við nýja lénið.

Bestu kveðjur af mölinni.  

12.12.2007 23:38

Skroppið austur á sunnudag...

Hrefna María skrifar...

Já já maður hefur gert lítið annað á sunnudögum en að renna austur á Álfhóla og sækja hross og skila hrossum. Enginn breyting var þar á síðasliðinn sunnudag en ég, pabbi og Fannar bróðir fórum austur með tóma kerru og fylltum hana að hrossum til baka.

Þegar afleggjarinn að Álfhólum nálgaðist heyrðist allt í einu VÓóóóóóóóóóó.... í okkur öllum í bílnum... Ég trúði varla mínum eigin augum shiturinn maður....Já húsið hennar Söru er sko tilkomu mikið.... séð frá veginum... (til vinstri á myndinni).

Sigga hafði orð á því þegar pabbi og Fannar komu inn í kaffi að þeir litu út eins og jólasveinar þar sem þeir voru svo vel klæddir pabbi í hárauðri úlpu og Fannar í skærbláum galla, alveg eins og jólasveinar...

Það skemmtilega við þetta comment hjá Frú Sigríði að þeir voru bókstafslega alveg eins og jólasveinar þegar við örkuðum út í mýri að ná í hrossin....

Karl faðir minn ætlaði sko að skoða sína hesta, meta ástandið á þeim og taka ef til vill þá inn ef þeir eru mikið hnjóskaðir og þess háttar... (Fannar hefur stundað sína hestamennsku með pabba þannig að hann á hestana með honum).

Hrossin voru í Álfhól og þar í kring en það eru örugglega um hundrað hross þarna á þessum haga þannig að maður þarf aðeins að leita til að finna rétt hross....

Eftir smá stund sé ég hestana hans... og bendi þeim á þá þar sem þeir stóðu í hóp með öðrum hrossum... Svo heyri ég í þeim... "jájá Blossi er sko í rosa flottu standi Hrefna.. jájá hann er rosa feitur og fínn og engir hnjóskar í honum".. ég lít við og segi "já er það" en þá eru þeir að þukla á Sóldöggu merinni hennar Söru!!! hehe jájá algjörir jólasveinar... svo heyrði maður þetta er Blossi, nei þetta er ekki Blossi, hvar er Leiftur er þetta Leiftur Hrefna??? uhhh eruð þið bara ekki búin að eiga þessa hesta í mörg ár... J en ég fyrirgaf þeim það aðeins að þekkja ekki Lella þar sem þeir hafa bara átt hann í eitt ár... og Sara þurfti að koma og sýna þeim hvar hann væri ... þar sem ég þekki hann ekki... hef bara einu sinni tvisvar séð hann... hummm jájáJólasveinarnir að störfum... Gæska litla var í því að bögga Fannar hahahaha... hún ýtir bara í rassinn á manni og veður yfir mann. Hún er 2vetra OFspakt trippi sem reyndar aldrei hefur verið spekt..

En gaman af þessu... Ég er brjálaðslega, klikkaðslega abbó út í þig kona!! Shiturinn hvað húsið er flott og REIÐHÖLLIN ... váaaaaaaaaaaaaa... Vó hvað var gaman að standa inní þessum herlegheitum.... Er farin að sjá eftir að hafa ekki bara látið byggja 10 pláss í viðbót fyrir mig..hummm og átt smá í þessu með þér... hehehe

Það verður sko þjálfað og þjálfað inn í þessari reiðhöll... og getur látið vinnufólkið þitt svitna þó það sé vont veður ...

kveðja úr Ölfussinu eins og stendur,

Hrefningur.... :)

11.12.2007 11:45

Húskofinn og rollurnar


Maður hefur ekki verið alltof duglegur við að setja inn fréttir undanfarið, svo lélegur í fréttalutningnum að það er bara farið að taka fram fyrir hendurnar á manni (sbr síðustu færslu)  En það er bara gott mál, hérna kemur allavega mynd af kofanum í öllu sínu veldi. Það hefur ekkert verið gert síðan þessi mynd var tekin fyrir rúmri viku síðan en það verður gengið frá öllu í lok vikunnar og í þeirri næstu. Byrjað verður að slá upp fyrir frontunum í dag, svo náði ég í hluta af innréttingunum til Gylfa járnsmiðs fyrir helgi og við erum að vonast til að geta græjað hluta hússins ( miðjustíurnar) fyrir jól, þannig að það verði nú kannski hægt að taka eitthvað inn fljótlega, um áramót eða svo (hrmf ,bjartsýn)! Miðstíurnar eru reyndar 16 þannig að það er feykipláss.

Svo er maður að dunda sér í sauðfjárræktinni, láta sæða nokkrar rollur og svona, reyndar er ég algerlega sammála Vigni í Hemlu með að hrútavalið í ár er ekki spennandi. Það er náttúrulega ferlega glatað að obbinn af þessum hrútum sem í boði eru, eru svipað eða lægra stigaðir heldur en hrútarnir sem maður á sjálfur. Þannig að það er bara einn kollóttur hrútur sem hægt er að nota, Máni frá Melum og einhverjir 2 hyrndir en maður er að rækta kollótt þó svo að maður stelist til að krydda blóðið með hyrndum hrútum inná milli, ekki málið og það er hægt að fá þrusu flotta einstaklinga úr því.

06.12.2007 23:37

Spari-Stóðhestar á Álfhólum

Hrefna María skrifar....

Jájá ég gat ekki annað en bloggað yfir þessa færslu þína Sara haaaa... þar sem ég hef nú lykilorðið inn á síðuna hjá þér. Mér er líka eiginlega alveg sama um þessi beljur :)  enda er ég held ég komin með ofnæmi fyrir mjólk sem ég tel mega rekja til þess að ég hafi drukkið of mikið af mjólk þegar ég var minni í sveitinni.... ;)

En það er önnur saga sem ég ætla að segja frá núna... Ég nefnilega rann austur á Álfhóla um daginn að skipta út hrossum eins og ég hef gert annað slagið í haust. Það var indælisveður og ég var nýbúin að kaupa þessa líka fínu myndavél. Ég reyndi að taka nokkrar myndir af "spari" stóðhestunum sem eru í "spari" girðingu við veginn. Að vera spari stóðhestur á Álfhólum þýðir að þú færð alltaf gott að borða hjá þeim Söru og Siggu reglulega og dekrað við þig.

Myndirna heppnuðust ágætlega. Mikill svanasöngur var í þeim við myndatökur, þar sem ég sleppti einum spari hestinum til þeirra eftir 2 mánaða tamningu í Reykjavíkinni, honum Eldgýg mínum...  Hann er undan Gýgur frá Ásunnarstöðum (hryssa frá Herdísi Reynis) og Eldvaka frá Álfhólum.Gáski og Mári... Tígur gamli á röltinu..Tígur og Gáski að forvitnast...Gáski, Eldgýgur minn og Heikir að sperrast...Svana söngur graddanna...
Eldgýgur í upphafi tamningar núna í haust.


Adios.... er ekki með villupúka núna so don´t mess with the stafsetning ég er með leyfi fyrir þessu!!!

04.12.2007 23:58

Smá reiðilestur!

Arrrg! Ok, ég get ekki alveg orða bundist aftur.  Var að fá bændablaðið innum lúguna, las það ekki spjaldanna á milli en sá að þar voru allavega tvær greinar sem lofsömuðu innflutning á erfðaefni úr skandinavískum kúm.  Svo var ein grein eftir bónda sem ég man ekki hvað heitir, en hann talaði mínu máli algerlega, sumt af því svipað og hefur komið fram áður á þessari síðu. En hann var líka að tala um kálfadauða og hvernig sumir forkólfar LK (Landsamband kúabænda) sem keppast um að níða niður íslensku kúnna, halda því fram að kýrnar séu orðnar alltof skyldleikaræktaðar og þessvegna séu kálfarnir að fæðast lífvana og drepast.  Það er aldrei talað um fóðrun í þessu dæmi, hvaða vissu höfum við fyrir því að kálfadauði minnki eða hverfi ef við skiptum um kúakyn?  Hvernig stendur á því að miðaldra kona í Vestur-Landeyjum fær c.a 1.1 kálf á kú meðan hlutfallið er kannski 0.6-0.8 annarstaðar?  Af hverju bregðast kýrnar hjá henni ekki eins við skyldleikaræktuninni, fara þær kannski bara að eiga tvo kálfa af því að þær eru svona mikið skyldleikaræktaðar?  Nei, ég bara spyr.

Það eina sem þessi kona gerir ekki sem flestir aðrir gera, hún ræktar ekki bygg fyrir kýrnar og gefur þeim fóðurbætir í hófi.  Og er ekki með flórsköfu sem skóflar kálfunum í haughúsið, því það gefur auðvitað auga leið að þeir steindrepast við það, en það er engu að síður staðreynd að slíkt gerist.

Og hvað er ég að hafa áhyggjur af þessu hugsar einhver sjálfsagt. Er ekki bara nóg fyrir hana að hafa áhyggjur af hrossunum sínum og láta þá sem meira hafa vitið, hafa vit fyrir aumum bændalýðnum og hvurslags kúakyn eigi að rækta hér? Ég sé þá meira segja fyrir mér í þessum skrifuðu orðum, hristandi hausinn glottandi út í annað yfir afskiptaseminni í mér.

Það vill nú bara svo til að ég hef bara alveg hrikalega gaman að allri ræktun og þegar ég var yngri þá lá ég yfir nautaskránum, hrútaskránum og Ættbók og Sögu Ísl hestsins.  Og ég valdi yfirleitt nautin á kýrnar með bara alveg ágætis árangri.  Ég held allavega að þeir sem hafa keypt kvígu frá Álfhólum hafi sjaldan verið sviknir og þeir ánægðir með endingargóða og nytháa kú.  Ég verð samt að viðurkenna að í seinni tíð hef ég minna verið að skipta mér að kúnum nema þegar ég er spurð álits, en þess þá meira legið yfir hrútskránni enda alveg svakalega gaman að rækta kindur, þú sérð árangurinn af ræktuninni svo fljótt!

En engu að síður blundar alltaf kúaræktunareðlið í manni og mér finnst bara alveg sorglegt ef þessi innflutningur verður að raunveruleika.  Sjá þessir menn virkilega ekki hvað það er mikils virði að eiga íslenska kú, á Íslandi og geta selt og markaðsett sína íslensku mjólk til annara landa sem íslenska mjólk . ÍSLENSKA MJÓLK ÚR ÍSLENSUM KÚM FRAMLEIDDA Á ÍSLANDI, EKKI ÚR SÆNSKUM EÐA NORSKUM BLENDINGUM  búna til á Íslandi. 

Neytendur hafa líka sagt sína skoðun í könnun þar sem þeir voru andvígir í meirhluta. Hvað segja forkólfar LK þá?? KALLA NEYTENDUR ILLA UPPLÝSTA!!!! Ég sem neytandi íslenskra mjólkurafurða er bara sármóðguð yfir svona yfirlýsingu en það sem verra er, að neytendur hefðu sjálfsagt verið taldir VEL upplýstir hefðu þeir verið fylgjandi, þarf ekki neinn vitring til að sjá það út!

Jæja, þá er manni nú runnin reiðin í bili, ætlaði að setja mynd inn af smá fornleifafundi um helgina en forritið er eitthvað að leika með mig þannig að ég læt það bíða seinni tíma bara. 

Þið hafið væntanlega flest orðið var við breytingarnar á síðunni sem eru algerlega til batnaðar að mínu mati, þökk sé henni Sögu vinkonu minni sem hefur alveg lagst yfir hana, full af áhuga.  Þið sem ekki hafið uppgvötað breytingarnar sjáið þær þegar þið farið inná t.d hryssur, þá eru þar stór hópur af hyssum sem eru eða eru væntanlegar ræktunarhryssur  á Álfólum. Með því að smella á myndina koma svo upp meiri upplýsingar. En þið eruð nú öll svo klár að þið eruð auðvitað löngu búin að fatta þetta   Talsverð vinna er samt ennþá eftir við að henda inn upplýsingum, það er svona þegar maður sóar eina lausa tímanum sem maður hefur, til að ergja sig á þessum "vonandi ekki yfirvofandi" kúainnflutningi!

  • 1

Eldra efni

Flettingar í dag: 365
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 1512
Gestir í gær: 403
Samtals flettingar: 1168942
Samtals gestir: 76892
Tölur uppfærðar: 15.7.2024 11:05:40

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]