20.07.2013 08:53

Síðbúin vorsýningarfrétt

Líklega hefur maður aldrei komið jafn litlu í verk eins og þennan veturinn enda dagarnir ansi fljótir að líða með lítinn snáða á handleggnum stóran hluta dagsins, en ekki ætla ég að kvarta yfir eða sjá eftir þeim tíma í það fer, síður en svo enda litli drengurinn sem hefur fengið nafnið Hrafnar Freyr algert draumabarn ;) 

En engu að síður reynir maður að stelast í hesthúsið þegar hægt er og með dyggri aðstoð Söru Rut sem hélt öllu í horfinu meðan ég komst ekki í hnakkinn og í allan vetur þá tókst að halda hlutunum gangandi, nokkur hross skiptu um eigendur og nokkrar hryssur voru sýndar í vor.  Nú er reyndar að koma inn skemmtilegu hestaárgangarnir þar sem meirhlutinn af folöldunum 3 ár í röð voru hestar, þannig að það er nóg úrval af geldingum á tamningaaldri, úff!

Já, það var fínt að komast loksins í hnakkinn 11 febrúar, rúmum mánuði eftir að ég átti, eftir 7 mánaða pásu, en ég hætti að ríða út strax eftir landsmót í fyrra. Var reyndar orðin áhugalaus í meira lagi með hrossin fyrir þann tíma, síþreytt og pirruð og var dauðfegin þegar landsmótið var yfirstaðið, þá þyrfti ég ekkert að pína mig meir í hnakkinn ;)  En til allrar hamingju kom áhuginn til baka þegar litli guttinn fæddist og maður er hægt og rólega að komast í fyrra form.

En eins og áður sagði þá voru nokkrar hryssur mátaðar á brautinni í vor.



Sólarorkan hans Valdimars stóð sig vel á Gaddstaðaflötum og kom út í 8, klárhryssa með 8.5 á línuna nema 9 fyrir stökk.  Sólarorka er 6 vetra undan Kraft frá Neðri-Þverá og Sóldögg, sem sagt sammæðra Sóllilju.  Hún átti folald 4 vetra sem hún missti, og frumtamin þá um haustið. Stór og myndarleg skrefamikil jafnvíg opin fjórgangshryssa, traust og samvinnufús.



Mánaglóð er algert uppáhald hjá húsráðanda í augnablikinu, skemmtileg klárhryssa eðlishágeng og verulega gaman að vera í hnakknum á þessari, hún er ennþá að vaxa og á mikið inni, efnilegur fjórgangari eins og mörg systkyni hennar undan Mónu og ekki er faðirinn af verri endanum, HM farinn Bragi frá Kópavogi.  Það var ekki hægt að láta Söru Rut enda veturinn án þess að máta kynbótabrautina og þær voru sætar saman Sara Rut og Mánaglóð. Sara fékk strax fyrstu níuna í hús, fyrir hægt stökk, 8.5 fyrir fet, stökk og fegurð í reið og 8 fyrir annað.  Þetta var þeirra beggja fyrsta ferð á kynbótabrautina.



Geisja er léttstíg og kát, fékk ekki alveg allt sem ég ætlaði henni í þetta skiptið, en það er nógur tími, enda er hún bara 5 vetra. Hún er undan Gásku og Stála frá Kjarri.  Forsýningin var kannski ekki alveg nógu sannfærandi og hún hækkaði örlítið á yfirlitinu, fannst nú heldur lítið gefið fyrir brokk samt.... en eins og ég segi hún er ung og spræk og á framtíðina fyrir sér!  Fékk 8.5 fyrir tölt stökk vilja og fegurð í reið, 7.84 í aðaleinkunn, klárhryssa.



Svo er það hin sprengviljuga Frostrós undan Þyrnirós og Hrym frá Hofi, ég ætlaði sko heldur betur að bæta dóminn á henni síðan í fyrra, en það gekk ekki alveg upp í þetta skiptið, forsýninginn fór út og suður en yfirlitið gekk hins vegar vel þó hækkunin væri lítil, hún endaði í 7.68.  Ætla samt að telja mér það til tekna að ég náði ekki að prófa þessa hryssu almenninlega fyrr en í lok maí, rétt fyrir sýningu, og var svo aðeins að "delera" með járninguna á henni, en stefni á að máta brautina aftur með hana í sumar. Það er svaka mikið í þessari meri, mikill kraftur og rými á tölti og brokki, býr yfir einhverju skeiði líka, finnst nú reyndar skemmtilegra að reisa hana uppúr herðum og láta hana fljúga á yfirferðartölti frekar :P Verena sem hefur verið að vinna hjá mér á þessa hryssu en við sáum um hana í vetur meðan hún ferðaðist vítt og breitt um heiminn.


Eldra efni

Flettingar í dag: 1106
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1158
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 1829694
Samtals gestir: 104885
Tölur uppfærðar: 10.2.2025 23:30:54

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]