27.10.2010 21:58

Haustverkin



Ætli maður sé ekki búinn að slá öll met í bloggleti í þessum skrifuðu orðum!  Tölvan mín er orðin eins og gamall trabant og ég hef orðið litla þolinmæði við að sitja við hana, sér í lagi ef kemur að myndvinnslu og videovinnslu.  Kannski tími á að fá sér nýja (eða hreinsa vírusana úr þeirri gömlu ;)

Haustið hefur farið mjúkum höndum um menn og hesta, búið að vera alveg einmuna blíða fram að þessu með smá undantekningum,  til allrar lukku vegna heilsufars hrossanna á þessum tímum.  Við höfum ekki lent í að fá mikið veik folöld ennþá en það verður að hafa athugult auga með og grípa fljótt inní ef með þarf.  Fullorðnu hrossin sýnast flest hafa jafnað sig en hjá fáeinum hefur þetta dregist eitthvað á langinn.  Myndin fyrir ofan sýnir sprækan Gáska og Urðarson.


Gola, Blængur, Drífandi, Faró og Gullveig.

8 hross fóru frá okkur um helgina til Nörrköpingen í Svíþjóð, ekkert var stoppað eftir einangrunina þannig að vonandi er hrossahaldið allt á réttri leið.  Það munar nú alveg um að losna við 8 stykki og það voru ánægðir eigendur sem tóku á móti hrossunum,  margir búinir að bíða eftir þeim langþreyttir síðan í vor!


Íslensku gæðingarnir að njóta lífsins síðustu dagana á íslenskri grundu með íslenska "ösku" töðu að smjatta á!






Fyrstu verðlauna myndarhryssan Gullveig frá Lóni komst loksins til eigenda sinna í Noregi.  Hún fyljaðist ekki í fyrra í fyrstu atrennu, en Krákur frá Blesastöðum bætti þar úr í vor og fór hún fylfull út.



Og þessi unga norska mær var búin að bíða í 5 langa mánuði eftir henni Golu.  Gola var veik þegar hún átti að fara í flug í vor og biðin var löng og ströng fyrir Emilie sem poppaði reglulega upp hjá mér á Feisbúkk og spurði hvort Gola væri ekki alveg að koma :) 



Tamningar hafa verið á "speed dial" hérna síðan um miðjan september en þá var hraðtamningarstöðin sett á fullt og 13 ótamin tryppi tekin heim og 12 voru orðin reiðfær úti á innan við viku.  Ég er mjög kröfuhörð um hraða námsgetu hjá hrossum samanber að sá þrettándi sem var ennþá bara inn í hringgerði eftir vikuna fer líklega í "Hvíta Húsið".  En svona er það bara, bransinn er harður. 

Þessi blesótti var reyndar ekki í frumtamningarhópnum, en þetta er 5 vetra efnisfoli, fimmgangari sem er á leiðinni á sölusíðuna von bráðar.  Það vill svo skemmtilega til að honum var bjargað frá "Hvíta húsinu" á sínum tíma.  En fyrir fimm árum síðan var ég stödd á Strönd í Landeyjum að leita að sérstökum litafolöldum fyrir kúnna og sá þá þennan blesótta í folaldahópnum með klippt tagl.  Og það að vera með klippt tagl þýddi að viðkomandi var á leiðinni í "Hvíta húsið" á Selfossi.  Þar sem það vakti athygli mína hvað hann bar fótinn vel, þá hringdi ég í Valda frænda en hann átti hestinn sem þetta folald var undan, Glampasoninn Þrym frá Álfhólum, og sagði honum að versla!  Ekki er móðuættin af verri endanum en Skeiðhestafaðirinn mikli Kjarval er móðurafi.  Það er mjög stutt síðan það var tékkað á fimmta gírnum í þeim blesótta, en hann virðist alveg vera í góðu lagi.



Það sem stendur uppúr af mínum frumtamningartryppum þetta haustið er líklega 3v Gáskudóttirin Eldglóð undan Braga frá Kópavogi.  Stór og myndarleg, gangmikil, næm og létt. 



Aðra Bragadóttir er ég með, Mánaglóð þriggja vetra undan Mónu gömlu, er þá hálfsystir Móeiðar.  Hún er hágeng klárhryssa með frábæra samvinnuþýða lund og góðan vilja, ekki spillir liturinn fyrir, móálótt vindótt.  Stígur hæga töltið mjúklega eftir rúmlega mánaðartamningu, efnilegt fjórgangsefni þarna á ferð.

Þriðja Bragadóttirin, Álfarós Þyrnirósardóttir er í eigu Húsafellshesta og er í tamningu hjá John í Ármóti.  Jonni er komin með öll Þyrnirósarafkvæmin í áskrift eftir að hann kynntist Þrumufleyg :) Við fórum í úttekt í Ármót um daginn og vorum ánægð með það sem við sáum.  Hrefna tók helling af myndum......eða hún hélt það alveg þangað til hún uppgvötaði að það var ekkert kort í myndavélinni!  En ég trúi ekki öðru en það komi önnur Kodak móment síðar!




Jamm, þannig að ákvörðunin með að veðja á Braga með bestu merarnar fyrir 4 árum var ekkert svo galin held ég, mesti bömmerinn er samt að vita ekki hvernig Dimmuborg Dimmudóttir mjaðmabrotna hefði litið út undir hnakk, því öll systkini hennar (hvort sem var af móður eða föðurkyni) voru eins og reiðskólatúttur miðað við hana þegar þær voru ungviði :/ 

Annars er það að frétta af "Prinsessunni á bauninni" eins og hún er stundum kölluð í gríni, að hún er fylfull við Frosta frá Efri- Rauðalæk, en ég var bundin við að nota hesta sem voru í sæðingum í nágrenninu fyrir hana.
Ég var búin að heyra af annari hryssu í eins ásigkomulagi sem búin er að eiga tvö folöld, þannig að ég lét bara vaða á það líka, en lagði ekki í það að láta hana standa undir hesti í þetta skiptið.  Og hún er bara nokkuð brött miðað við aðstæður, getur tekið sig til og brokkað eins og vindurinn og sýnst ekkert vera neitt óskaplega mikið hölt.



En það þarf svo sem ekkert að leiða hugann að því lengur hvort á að halda undir Braga meir því hann fór líka í fluginu um helgina til Nörrköpingen og kemur ekki til baka.  Hann var hér í nágrenninu í sumar en það vissi ég ekki fyrr en of seint og var búin að halda flestum merunum mínum áður en hann kom.





Það er ekki neinn fjöldi af stóðhestum þetta árið, einn Skeljabrekku Glymson á ég, álitlegan og fallegan á litinn, en get ekki sagt neitt um það ennþá hvort þarna sé einhver tímamótahestur á ferð,  geðugur hestur með nógan gang og töluvert skeið held ég, en það er ljóst að sá góðgangur verður að vera til staðar ef þessi hross eiga eitthvað að gera í kynbótakerfið, meir um það síðar ;)

Ætli það séu ekki hérna að jafnaði yfir 30 hross í þjálfun þannig að nóg er að gera. Mér til aðstoðar var í september, hann Arnar, ungur maður af Snæfellsnesinu en Hafnarfjarðarmærin Stella tók svo við af honum og eyddi hér skólafríinu sínu, síðustu fjórum vikum.  Svo á ég von á danskri stelpu, verknema sem verður fram að jólum.

Svo má ekki gleyma henni Hrefnu frænku sem er búin að vera hér í allt sumar en hún er eins og farfuglarnir, flýgur til byggða á veturnar og ég býst við að svo verði í vetur einnig.



Sparibaukar eru flestir í fríi og verða það vonandi sem lengst, það er þá tími til að vinna í öðru á meðan! Stallsysturnar Díva og Gjóska orðnar vel bústnar og belgstórar í hausthaganum eins og sjá má. Það verður farið að tékka á þeim svona eitthvað undir lok Nóvember aftur, það gengur ekki að þær vaxi á þverveginn alveg út í það óendanlega.  Við könnumst nú við það, hvað það er lítið mál að bæta á sig aukakílóunum en algert "hell" að ná þeim til baka ;)  By the way, það er búið að vera Bootcamp þema á þessum bæ hjá tamningafólki undanfarið og verður fram að jólum.  Það gengur ekki að ætlast bara til að hrossin séu í góðu formi, knapinn verður að vera það líka!



Ekki má hlaupa frá haustinu án þess að minnast á kindurnar.  Hverju sem er að þakka, þá var meðalviktin á lömbum þetta árið sú hæsta hingað til, 17,13 kíló og gerðin 8.62, fitan 6,87.  70% af lömbunum fór fyrsta sláturdaginn í September sem var í kringum tíunda.

Gimbrarnar og lífhrútarnir voru svo vegin og metin um miðjan október og var það mat ekkert til að kvarta yfir þó að lömbin væru aðeins farin að slakna, enda grös farin að falla og ekkert kál hér í boði fyrir kindur eins og á mörgum bæjum. Reynum að halda kostnaðinum í lágmarki við þessar rollur, enda eru þær nú hálfgert hobbý miðað við aðrar búgreinar hér á bæ!
Stærstur hluti af gimbrunum voru með 17.5 og 18 fyrir læri og tvær fengu 18.5. Þær eiga það sameiginlegt að eiga hyrndan afa, sæðingarhrútinn Kveik og  önnur þeirra raunar hyrnd og sú eina með höldur sem hlaut náð þetta árið.  Stofninn er 95% kollóttur og þær hyrndu fá að vera með uppá punt ;)

Eins og alltaf var valið á milli gimbrana erfitt og alveg hægt að setja á 45 fallegar gimbrar í staðinn fyrir tæplega 30.  En vinnan við þetta á vorin er alveg nóg til að halda manni á mottunnni varðandi fjölgun, og að eiga 160 -70 hausa á húsi er meir en nóg, fjúff ! 

Stella tamningarkona var farin að hafa miklar skoðanir á valinu og valdi sér auðvitað þær systur sem voru litfallegastar, sjá mynd.  Þær eru reyndar gríðarháar í bluppi þó að dómur hafi ekki verið sá besti.  Skiptir þar mestu að þær eru þrílembingar.  Svo sem ekkert slæmt að fá aukalömb á vorin og með það í huga sluppu þær fyrir horn.



Lenti í því á minni vakt í fjárhúsinu í vor að taka á móti tröllalambi.  Aldrei séð annan eins hlunk og eins og sjá má á myndinni þá eru lappirnar á honum næstum eins breiðar og á mömmunni!  Ég var bara ánægð með ljósmóðurhæfileika mína fyrir að hafa náð honum lifandi út án þess að drepa kindina með hjálp fílsterks aðstoðarmanns!
Hann er eins dags gamall á þessari mynd en Míní mora er 6 daga gömul gemsatvílembingur við hliðina á honum. Það má geta þess að mamman stendur uppá planka þarna við hliðina.  Trölli skilaði sér alla leiðina í sláturhús í byrjun sept og var hátt í 24 kíló,  jafn þungur og fyrirmálslamb, einlembingur fæddur einum og hálfum mánuði fyrr!

Jæja þetta er orðið gott í bili og það verður vonandi ekki jafn löng bið eftir næstu færslu :)


Eldra efni

Flettingar í dag: 1147
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1158
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 1829735
Samtals gestir: 104885
Tölur uppfærðar: 10.2.2025 23:52:09

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]