25.07.2010 23:51

Töltmyllan



Sum folöld eru "fótógenískari" en önnur.  Og nei, hann er ekki undan Álfi frá Selfossi þó að skjóttur sé.
Hann vakti strax athygli mína þessi þegar hann tölti kattmjúkur upp úr karinu og það var leikur einn að smella af honum nokkrum flottum myndum þegar hann var viku gamall.



Hann er undan keppnishestinum hennar Rósu Valdimars, honum Íkon frá Hákoti sem er 9 töltari og Rauðhöttu frá Álfhólum, Feitu Skjónu sem við köllum þvi það var aldrei hægt að koma henni í sýningarhæft form þegar hún var yngri þótt ágæt væri.  Reyndar lenti hún alltaf í að vera svona sumarþjálfunarhross og kannski ekki við öðru að búast en að hún safnaði á sig þess á milli!



Íkon þarf svo sem ekkert að kynna neitt frekar, en hann og Rósa hafa verið í toppbaráttu á mörgum töltkeppnismótum síðustu tvö ár þar sem Rósa er sko ekkert að keppa við neina áhugamenn heldur bara þá bestu ;)



Það er ekki nóg með að töltið sé dillimjúkt með háum hreyfingum, heldur er liturinn stingandi. Ætli að það megi ekki kalla hann svartskjóttan frekar en brúnskjóttan?  Fleiri myndir hér




Það er gaman að segja frá því á Rauðhatta fékk mikla athygli fyrir annað folald á síðasta ári en sá var einnig skjóttur undan Dáðadreng, Víkings og Dimmusyni.

Rauðhatta er af gamla kyninu í Álfhólum undan Tígur og Bylgju frá Álfhólum og ég hef alveg lúmskt gaman af því hvað það er stutt í eldgamla stofna í gegnum Rauðhöttu. Bara í gegnum móðurina er Nökkvi bæði langafi og langalangafi hennar og þá er ótalin Hornafjarðartengingin í gegnum Tígur sem er margslungnari og ég ætla ekkert út í hér.   En ekki nóg með það þá er Hindisvíkurhesturinn Sörli (141 ef ég man gömlu ættbókina rétt) frá Dalkoti sem fæddur er 1926 langalangafi hennar líka!  Sörla keypti afi Valdimar fyrir 1950 og átti í tvö þrjú ár og eitthvað var hann notaður hér um slóðir.

Undan alsystur Rauðhöttu, Unni, eigum við Urði Ögradóttur, ósýnda hryssu sem gefið hefur eina fyrstu verðlauna klárhryssu með 9 fyrir tölt, hana Artemis sem Valdi Hrefnubróðir á og tryppin lofa góðu.  Unnur veiktist illa veturinn eftir að Urður fæddist og var felld.  Urður er því eina afkvæmið hennar. 

Rauðhetta er önnur alsystir sem er með kringum 7.50, klárhryssa. (Hugmyndaríkin í nafnavali alveg að brillera)



Fyrsta afkvæmið undan Rauðhöttu kemur til tamningar fyrst í sumar því hún var töluvert fullorðin þegar henni var haldið fyrst undir hest.

Þessi huggulegi foli undan henni er hins vegar á leið til Finnlands og er einnig undan Íkoni, tveggja vetra gamall í dag (mynd síðan 2009)

 

Eldra efni

Flettingar í dag: 1038
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1158
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 1829626
Samtals gestir: 104884
Tölur uppfærðar: 10.2.2025 22:48:01

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]