28.04.2009 08:23

Ræktun 2009




Ég las það á Hestafréttum á miðvikudaginn að ég ætti að vera með ræktunarbússýningu í Ölfushöll!  Það höfðu farið fram óformlegar viðræður þess efnis en ég var ekkert búin að ákveða neitt.  En.... fyrst það var búið að henda manni út í djúpu laugina, þá var bara eins gott að synda að bakkanum og ég mætti með 3 ungar klárhryssur. 

Ég tók sjensinn og mætti með Móskjónu mína sem reyndar er búin að fá nafn, og heitir nú Gjóska. Hún er 5 vetra undan Hrannari frá Höskuldsstöðum og Gásku minni, fyrir þá sem ekki vita. Svoldið hrá, en hún slasaðist illa á fjórða vetur og ég hélt að það væri búið spil með frekari tamningu en sem betur fer lagaðist hún.  Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér þessi hryssa og þegar hún er í virkilegu stuði, þá hef ég stundum sagt að hún sé síðasta hrossið sem ég sel úr húsinu. En auðvitað var hún ekkert í höllinni eins og hún er í heimahögunum ;)



Hrefna "Jóns"

Ég ákvað að vera ekkert að sækja vatnið yfir lækinn og fann bara knapa úr Álfhólaræktuninni til að ríða með mér.  Hrefna þekkir Herská en hún var með hana í smátíma í vetur.  Herská er 6 vetra undan Parker og Gýgur Blakks 999 dóttur, já maður sækir að sér hornfirðingana úr öllum áttum ;) en komin af Lýsingi frá Voðmúlastöðum í móðurætt ef mér bregst ekki minnið.
Gýgur var mikil fótaburðarmeri og svakalega viljug hryssa en með arfaslakan dóm.  Herská er nú stærri og myndarlegri en mamma sín en ég veit ekki hvort ég á eitthvað að vera að angra kynbótadómarana með henni eða vera bara með hana í keppni. Hún var önnur á þrígangsmóti hjá Geysi þar síðustu helgi á því allra fjörugasta hestamóti sem ég hef tekið þátt í, Deildarmóti Geysis.

(Þeir sem fatta ekki sneiðina undir myndinni þá er að sjálfsögðu verið að vitna í snillinginn Danna Jóns sem fer oft mikinn í veifingum)



Rósa, mamma Hrefnu kom til mín á fimmtudagskvöldið, daginn fyrir sýningu og prófaði Dívu í fyrsta skipti.  Það þurfti ekki að beita hana miklum fortölum til þess að ríða með okkur eftir að hún hafði prófað hana, enda Díva með léttari og skemmtilegri hrossum sem maður kemst á bak.  Díva er 5 vetra undan Arð frá Brautarholti og Dimmu frá Miðfelli.

Ég veit að það væri glæpur af mér að lofa bót og betrun í blogginu en vonandi verður ekki svona langt í það næsta.



"Álfhólatútturnar" ;) 

Eldra efni

Flettingar í dag: 8760
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 1660
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 2009873
Samtals gestir: 109026
Tölur uppfærðar: 23.3.2025 19:28:06

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | [email protected]