01.11.2008 14:32

Baldni folinnÉg var einhvern tíman búin að minnast á að ég væri með skemmtilegan gelding undir höndum, og hér er sem sagt mynd af honum. Kannski geri ég video af honum líka þegar losnar pláss í tölvunni en hún er ansi full, 2 laus megabæt eftir!
En þetta er sem sagt hann Rebbi minn. Hann var svo klár um daginn þegar að það kom kona með fullt af peningum og e-ð varð ég að sýna henni, en Rebbi varð fyrir valinu. Ætlaði að setja bara nógu mikið á hann þannig að hann færi ekkert.  En nei, þó hann gangi alltaf voða fínn og sáttur (eða næstum alltaf) undir rassinum á mér, þá var hann ekki að fíla eitthvað hjá þessari konu og stökk bara upp í loftið og lét alveg eins og fífl.  Konan skildi ekki neitt í neinu enda taldi sig góðan reiðmann og skellti skuldinni auðvitað á klárinn, illa taminn, frekur og vitlaus.  Ég ætlaði aldrei að hafa hana af baki því hún var ekki sátt við að gefast upp en tókst þó að lokum, því hann var alveg kominn í þann gírinn að losa sig sjálfur við hana!   Ég varð bara voða fegin og Rebbi minn tölti með mig fangreistur og fínn alla leiðina heim og ég þurfti ekkert að hafa fyrir því að finna neitt verð á hann.   Það er nú samt ekki svo gott að hann sé neinn einsmanns hestur þó svo það hafi alltaf verið gamall draumur frá því maður fór fyrst á hestbak að eiga hest sem enginn gæti setið nema ég sjálf, því dönsku stelpurnar ( Nanna vinkona Maju er hér tímabundið líka) ríða honum skellihlæjandi líka.


Það er töluvert skeið í honum líka en ekkert verið þjálfað. Ég var bara mjög sátt við að sjá hann undir mér í fyrsta skipti þrátt fyrir að hann sé spikfeitur og ekki uppá sitt besta, en ég lét taka video af okkur svona í leiðinni, en ég var að mynda söluhross meðan veðrið var gott.
 
 
T.d hann Kolfaxa en Kolfaxi og Refur eru undan alsysturm, svo skemmtileg tilviljun sem það er.  Refur er undan Nótt og Kolfaxi undan Kolföxu gömlu ( þið munið kannski eftir brúnskjóttu folaldi sem var á forsíðunni fyrir ekki svo alls löngu en það er undan sömu hryssu)  Kolfaxa hefur bara átt hesta síðustu ár en tvær hryssur undan henni voru seldar út fyrir löngu og skemmtilegt nokk að oft fæ ég fréttir af þeim, en eigendurnir eru svaka ánægðir með þær, sér í lagi eigandi Kolbrúnar sem er hollenskur en hún var á einhverri kynbótasýningu um daginn (ekki svona eins og  við þekkjum) og kom bara svaka vel út.  Ég á eina alsystur þeirra, sem heitir Kolfinna sem stóð alltaf til að temja en var aldrei gert en hún átti hest hér á sölusíðunni, Örninn sem er nú seldur og eina afkvæmið hennar enn sem komið er.

Nótt á því miður ekki mörg afkvæmi og Refur er sá fyrsti sem er verulega spennandi.  Oftar en ekki voru folöldin hennar bara sett í "hvíta húsið" þóttu lítil og full mikið geng.  Það hefði sjálfsagt verið örlögin hans Rebba ef hann hefði ekki verið undan Pegasus sem var töluvert látið með á sínum tíma.  Hann kútaðist um á lulli og einhverju töltmalli líka, kannski ef maður setti hundinn í hann að hann sýndi e-ð rými en annars var hann ekkert í hávegum hafður.  Svo liðu árin og hann varð langmyndarlegastur í hópnum en svoldið styggur og var um sig, og er enn í dag ekkert mjög kelinn. Það er eins með Nótt og Kolföxu en hún hefur bara átt hestfolöld í seinni tíð og það eru til nokkrir geldingar undan henni sem eru að komast á tamningaaldur. 

Nótt og kolfaxa eru hálfsystur Jarls frá Álfhólum að móðurunni til en Jarl var Feykissonur og lengi vel keppnishestur Gulla í "Reiðsport" eða á Lækjarbakka.

Jæja nóg komið af einhverju rausi um gamlar merar.Flettingar í dag: 173
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 1172
Gestir í gær: 88
Samtals flettingar: 4655182
Samtals gestir: 755045
Tölur uppfærðar: 20.4.2019 12:40:29

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS