09.02.2008 00:19

Nú er úti veður vont, taka tvö!

Það er alger óþarfi að breyta fyrirsögninni, það er hvort eð er alltaf hálf geggjað veður á þessum blessaða klaka okkar!  Ég fauk í orðsins fyllstu merkingu á leiðinni heim úr hesthúsinu, þetta eru svona 50 metrar og ég hélt að ég ætlaði ekki að hafa það heim undir glampandi eldingum og organdi þrumum.  Ég veit ekki hvort okkar var hræddara, ég eða Pjakkur. Hann við þrumurnar og ég við eldingarnar syndandi í gegnum stóran skafl, hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna flaug í gegnum kollin á mér þegar ég svamlaði í gegn! Ég er ekki hissa á að hlutabréfin falli í verði í svona hremmingsveðri, það búast auðvitað allir við heimsendi og geyma peningana undir koddanum frekar en að horfa á þá hrynja í frjálsu falli, gervipeninga sem fæstir eru til í raun og veru, en það er annað mál.  Þegar upp er staðið þá eru það hendur sem vinna sem standa uppi sem sigurvegarar á þessum tímum, þetta varð mér allavega ljóst þegar ég fékk reikninginn frá píparanum sem telst samt vera ódýrasti píparinn á stóru svæði. Það er nokkuð ljóst að ef ég á einhverntíman krakka þá sendi ég hann í iðnskóla til að læra pípulagningar til að vinna fyrir mér í ellinni, ekki viðskipta eða hagfræði til að höndla með peninga á tölvuskjá, uppkjaftaða peninga sem ekki eru til!  Sem betur fer eru mínir peningar bara fastir í húsi sem vonandi stendur af sér vonda veðrið en fellur ekki um koll eins og hlutabréfin eða borgarstjórnin. Kapitali útaf fyrir sig, sjálfstæðismenn búnir að skíta uppá bak með því að ljúga Ólaf ræfilinn fullan, ef ekki hann þá bara einhver annar í stólinn! Merkilegt nokk hvað þessi flokkur getur hnoðast áfram og komið sínum mönnum að allstaðar án þess að lýðurinn taki eftir því, tæki eftir því ef það væri framsóknarflokkurinn merkilegt nokk.  By the way mitt atkvæði er til sölu fyrir hæstbjóðanda, verst hvað það er langt í næstu kosningar vona bara að Ástþór Magnússon bjóði sig fram gegn Ólafi, hann getur boðið mér vel í tvöþúsund köllum fyrir atkvæðið X-Ástþór. Ástþór er samt ekki pabbi minn, best að það komist til skila hér fyrir fullt og allt fyrir ykkur sem ekki eruð viss!
Flettingar í dag: 173
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 1172
Gestir í gær: 88
Samtals flettingar: 4655182
Samtals gestir: 755045
Tölur uppfærðar: 20.4.2019 12:40:29

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS