19.12.2007 01:20

Næturvaktin

Jæja þá, ætli það sé ekki kominn tími á smá skrif.   Ekki það að það hafi verið mikið að gerast að undanförnu, en samt er einhvern veginn alltaf nóg að gera.  Ég var nú farin að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði af því að Landstólpakallarnir sem voru að reisa húsið létu sig hverfa í byrjun des og létu ekki sjá sig aftur fyrr en í gær, tvær vikur sem fóru í gúanóið.  Og það vita þeir sem hafa staðið í framkvæmdum að maður verður alveg afskaplega mikið óþreyjufullur yfir því að verkið klárist og ekkert er eins böggandi eins og að þurfa að bíða.  Það átti eftir að setja hurðir og glugga þannig að það var erfitt að vinna innivinnu sem þarf að gera svo hægt sé að taka "kofann" í notkun. 

En það má samt segja að það sé unnið dag og nótt. Ég var einmitt í nótt að vinna til 7 í morgun, já alveg galin eða það hélt í það minnsta Baldur smiður þegar hann mætti í vinnu kl. 7 og sá mig með pússningarbretti í reiðhöllinni kófsveitta. Hann var nú fljótur að giska á að ég væri ekki farin að sofa frekar en að ég hefði rifið mig svona snemma á lappir enda ekki sú árrisulasta sem um getur.  Ástæðan fyrir þessari yfirvinnu minni var að ég var að setja steiningalím á stóra vegginn í reiðhöllinni um kvöldið, eða réttara sagt hann Ómar sem hefur verið að grípa í vinnu hjá mér annað slagið.  Vegna þess hvað það ringdi mikið, var svo mikill raki í loftinu, enda ekki búið að loka nema hluta af húsinu, þá þurfti ég að bíða til hálf tvö um nóttina til að geta byrjað að pússa vegginn.  Múrarinn farinn í bæinn og ekki annað hægt að gera heldur en að bretta upp ermarnar og pússa skrattans vegginn þó svo það sé varla hægt að segja að maður hafi gert svona áður.    En sem sagt þettta tók sinn tíma, en bjargaðist

Verð nú að segja það að standa í svona framkvæmdum er hinn mesti skóli, svo margt sem maður vissi ekkert um áður en veit töluvert um núna. Hef verið að gantast með það að vera á mála hjá vinnumiðlun, svo hringir einhver og biður um múrara, þá mæti ég. Næsta dag hringir einhver og biður um pípara, smið osfr og alltaf mæti ég. Nei ég er nú í einhverjum svefnleysisgalsa núna en þetta fyrirkomulag er engu að síðu staðreynd þegar vinnumiðlunirnar eiga í hlut, þá senda þær sama manninn til allra verka þó svo hann kunni lítið sem ekki neitt í neinu, ja þetta er alla vega það sem "starfsmenn á plani" tala um.


Flettingar í dag: 289
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 484
Gestir í gær: 120
Samtals flettingar: 4754857
Samtals gestir: 771500
Tölur uppfærðar: 20.9.2019 05:59:44

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS