04.12.2007 23:58

Smá reiðilestur!

Arrrg! Ok, ég get ekki alveg orða bundist aftur.  Var að fá bændablaðið innum lúguna, las það ekki spjaldanna á milli en sá að þar voru allavega tvær greinar sem lofsömuðu innflutning á erfðaefni úr skandinavískum kúm.  Svo var ein grein eftir bónda sem ég man ekki hvað heitir, en hann talaði mínu máli algerlega, sumt af því svipað og hefur komið fram áður á þessari síðu. En hann var líka að tala um kálfadauða og hvernig sumir forkólfar LK (Landsamband kúabænda) sem keppast um að níða niður íslensku kúnna, halda því fram að kýrnar séu orðnar alltof skyldleikaræktaðar og þessvegna séu kálfarnir að fæðast lífvana og drepast.  Það er aldrei talað um fóðrun í þessu dæmi, hvaða vissu höfum við fyrir því að kálfadauði minnki eða hverfi ef við skiptum um kúakyn?  Hvernig stendur á því að miðaldra kona í Vestur-Landeyjum fær c.a 1.1 kálf á kú meðan hlutfallið er kannski 0.6-0.8 annarstaðar?  Af hverju bregðast kýrnar hjá henni ekki eins við skyldleikaræktuninni, fara þær kannski bara að eiga tvo kálfa af því að þær eru svona mikið skyldleikaræktaðar?  Nei, ég bara spyr.

Það eina sem þessi kona gerir ekki sem flestir aðrir gera, hún ræktar ekki bygg fyrir kýrnar og gefur þeim fóðurbætir í hófi.  Og er ekki með flórsköfu sem skóflar kálfunum í haughúsið, því það gefur auðvitað auga leið að þeir steindrepast við það, en það er engu að síður staðreynd að slíkt gerist.

Og hvað er ég að hafa áhyggjur af þessu hugsar einhver sjálfsagt. Er ekki bara nóg fyrir hana að hafa áhyggjur af hrossunum sínum og láta þá sem meira hafa vitið, hafa vit fyrir aumum bændalýðnum og hvurslags kúakyn eigi að rækta hér? Ég sé þá meira segja fyrir mér í þessum skrifuðu orðum, hristandi hausinn glottandi út í annað yfir afskiptaseminni í mér.

Það vill nú bara svo til að ég hef bara alveg hrikalega gaman að allri ræktun og þegar ég var yngri þá lá ég yfir nautaskránum, hrútaskránum og Ættbók og Sögu Ísl hestsins.  Og ég valdi yfirleitt nautin á kýrnar með bara alveg ágætis árangri.  Ég held allavega að þeir sem hafa keypt kvígu frá Álfhólum hafi sjaldan verið sviknir og þeir ánægðir með endingargóða og nytháa kú.  Ég verð samt að viðurkenna að í seinni tíð hef ég minna verið að skipta mér að kúnum nema þegar ég er spurð álits, en þess þá meira legið yfir hrútskránni enda alveg svakalega gaman að rækta kindur, þú sérð árangurinn af ræktuninni svo fljótt!

En engu að síður blundar alltaf kúaræktunareðlið í manni og mér finnst bara alveg sorglegt ef þessi innflutningur verður að raunveruleika.  Sjá þessir menn virkilega ekki hvað það er mikils virði að eiga íslenska kú, á Íslandi og geta selt og markaðsett sína íslensku mjólk til annara landa sem íslenska mjólk . ÍSLENSKA MJÓLK ÚR ÍSLENSUM KÚM FRAMLEIDDA Á ÍSLANDI, EKKI ÚR SÆNSKUM EÐA NORSKUM BLENDINGUM  búna til á Íslandi. 

Neytendur hafa líka sagt sína skoðun í könnun þar sem þeir voru andvígir í meirhluta. Hvað segja forkólfar LK þá?? KALLA NEYTENDUR ILLA UPPLÝSTA!!!! Ég sem neytandi íslenskra mjólkurafurða er bara sármóðguð yfir svona yfirlýsingu en það sem verra er, að neytendur hefðu sjálfsagt verið taldir VEL upplýstir hefðu þeir verið fylgjandi, þarf ekki neinn vitring til að sjá það út!

Jæja, þá er manni nú runnin reiðin í bili, ætlaði að setja mynd inn af smá fornleifafundi um helgina en forritið er eitthvað að leika með mig þannig að ég læt það bíða seinni tíma bara. 

Þið hafið væntanlega flest orðið var við breytingarnar á síðunni sem eru algerlega til batnaðar að mínu mati, þökk sé henni Sögu vinkonu minni sem hefur alveg lagst yfir hana, full af áhuga.  Þið sem ekki hafið uppgvötað breytingarnar sjáið þær þegar þið farið inná t.d hryssur, þá eru þar stór hópur af hyssum sem eru eða eru væntanlegar ræktunarhryssur  á Álfólum. Með því að smella á myndina koma svo upp meiri upplýsingar. En þið eruð nú öll svo klár að þið eruð auðvitað löngu búin að fatta þetta   Talsverð vinna er samt ennþá eftir við að henda inn upplýsingum, það er svona þegar maður sóar eina lausa tímanum sem maður hefur, til að ergja sig á þessum "vonandi ekki yfirvofandi" kúainnflutningi!

Flettingar í dag: 289
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 484
Gestir í gær: 120
Samtals flettingar: 4754857
Samtals gestir: 771500
Tölur uppfærðar: 20.9.2019 05:59:44

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS