28.11.2007 21:53

Sér fyrir endann..


Fréttaþyrstir hafa haft samband við mig og lýst enn og aftur óánægju sinni yfir seinagangi við fréttaflutning, þannig að ég verð að gjöra svo vel og henda einhverju inn!Á föstudaginn kvöddu þessir vösku kappar en þeir höfðu staðið að reisingunni og klætt þakið á rétt rúmri viku. Reyndar vantar hífingarmannin á myndina en hann hafði látið sig hverfa kvöldið áður.  Ég vil bara þakka þeim Sigga, Steina og Gulla fyrir vel unnin störf
 Þeir fengu reyndar alveg bongó blíðu til að reisa húsið, alveg ótrúlegt miðað við þennan veðurhamagang sem búinn er að vera í haust.Á mánudag voru svo nýir kappar mættir á svæðið og þeir tóku við að klæða og voru langt komnir með það um kvöldið.Og í dag, miðvikudag er búið að klæða allar hliðar hússins, þannig að nú getur fólk séð betur hvernig þetta lítur út!

Ég hef verið að gantast með það að þessi fréttaflutningur ætti eiginlega frekar að eiga sér stað á Barnaland.is, þetta er eiginlega orðið að einhverri allsherjarmeðgöngusögu hesthúss  en þessi heimasíða átti nú aðallega að snúast um hesta, ræktun og sölu, hummm....? Jæja, það kemur vonandi að því að maður getur farið að nota húsið og getur farið einbeita sér að hrossunum aftur!

Var samt að hugsa í dag, að það eru örugglega tveir mánuðir síðan ég fór á hestbak síðast ef undan er talið að ég hleypti fyrir kind á honum Smala-Jarp um daginn, telst nú varla með þar sem maður riður honum nú alltaf berbakt og helst ekki með beisli heldur, bara stallmúl kannski, yndislegur hestur. Eitt sinn var ég að smala á honum og gerði smá test á honum, sleppti taumunum og lét hann ráða algerlega ferðinni, bara tékka hvað hann væri klár!  Jú, jú  hann hélt hvítu ullarhnoðrunum öllum saman og kom þeim rétta leið, en hann skildi alveg eftir eina mórauða, var greinilega ekki alveg að meðtaka það að hún væri líka rolla

Flettingar í dag: 373
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 447
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 4987818
Samtals gestir: 791150
Tölur uppfærðar: 12.7.2020 19:16:46

ÁLFHÓLAR | SARA ÁSTÞÓRSDÓTTIR | 861 HVOLSVÖLLUR - ÍSLAND | Tel: (+354) 898 8048 | ALFHOLAR@ALFHOLAR.IS